Lýsa áhyggjum af heimild til skömmtunar á raforku

Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um drög að frumvarpi …
Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á raforkulögum. mbl.is/Sigurður Bogi

Samtök iðnaðarins lýsa áhyggjum af því að stjórnvöld velji á milli notenda um forgang að raforku með því að leggja fram frumvarp sem feli í sér skömmtunarkerfi fyrir orku á Íslandi.

Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á raforkulögum. Samtökin telja verulegra úrbóta þörf á drögunum. Á sama tíma og samtökin taka undir mikilvægi þess að útfæra viðmið um fullnægjandi raforkuöryggi og framboð á raforku lýsa þau yfir áhyggjum af þeirri vegferð sem stjórnvöld séu á.

Lögð er fram breyting á ákvæði raforkulaga sem felur í sér heimild til skömmtunar á raforku ef óviðráðanleg tilvik valda því að framboð raforku fullnægi ekki eftirspurn. Samtökin velta fyrir sér hvort núverandi staða í orkumálum hérlendis, svo sem framboð á raforku og uppbygging innviða, sé í raun staða sem getur fallið undir óviðráðanleg tilvik.

„Þvert á móti má færa fyrir því rök að slík uppbygging hefur tafist umfram það sem eðlilegt getur talist, þrátt fyrir vissu um fyrirsjáanlegan orkuskort og þörf á innviðauppbyggingu, vegna atvika er varða stjórnvöld beint,“ segir í umsögninni.

Athugasemdir við verklag við kynningu málsins

Benda samtökin á að skerðing á afhendingu raforku sé verulegt inngrip inn í starfsemi fyrirtækja og þar af leiðandi sé um að ræða opinbert inngrip inn í raforkusamninga og fjárfestingarsamninga.

Samtökin gera auk þess sérstakar athugasemdir við verklag við kynningu málsins. Áform voru kynnt á samráðsgátt Stjórnarráðsins hinn 13. febrúar og var umsagnarfrestur veittur til 27. febrúar, en alls bárust tíu umsagnir um málið. Drög að frumvarpinu voru kynnt degi síðar eftir að umsagnarfrestur rann sitt skeið á enda.

„Sá stutti frestur frá því að áform um lagabreytingu voru kynnt og drög að frumvarpi var lagt fram gefur fastlega til kynna að þau drög hafi að litlu eða engu leyti tekið mið af framkomnum umsögnum,“ segir í umsögninni. Slíkt geti varla talist uppfylla kröfur sem gera verði til vandaðrar stjórnsýslu sem og undirbúnings lagafrumvarpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert