Ragnar Þór Ingólfsson mun áfram gegna formannsembætti VR á komandi kjörtímabili, 2023 til 2025. Hann hlaut 6.842 atkvæði eða 57,03% atkvæða.
Úrslit í formannskjörinu voru kunngerð rétt í þessu en atkvæðagreiðsla hófst klukkan níu á miðvikudaginn í síðustu viku og lauk á hádegi í dag. Kosið var um formann verkalýðsfélagsins og stjórn þess.
Tveir voru í framboði fyrir formannsembættið en Elva Hrönn Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur á þróunarsviði VR, tilkynnti mótframboð sitt í síðasta mánuði. Hún laut þó í lægra haldi fyrir sitjandi formanninum með 4.732 atkvæði eða um 39,44%.
Atkvæði greiddu 11996 en á kjörskrá voru alls 39.206 VR félagar. Kosningaþátttaka var því 30,6%. Niðurstöður í stjórnarkjöri VR verða tilkynnt eftir skamma stund
Þegar Ragnar Þór tilkynnti um framboð sitt sagði hann starf stjórnar og skrifstofu VR hafa verið framúrskarandi gott og einkennst af mikilli samheldni og virðingu. Áherslur hans verði áfram á að bæta kjör og réttindi félagsfólks.
Elva Hrönn hefur gagnrýnt Ragnar Þór, m.a. vegna framkomu hans við gerð kjarasamninga fyrr í vetur. Hann var þá andsnúinn samningnum en mikill meirihluti stjórnar VR vildi semja. Hún kvað formanninn þó hafa sett mörg góð mál á dagskrá.
Fréttin hefur verið uppfærð.