„Þetta var bara martröð“

Mynd úr þvottahúsi þar sem bruninn varð.
Mynd úr þvottahúsi þar sem bruninn varð. Skjáskot/Facebook

„Þetta hljóð ómar bara í hausn­um á manni,“ seg­ir Birna Gylfa­dótt­ir en hún og fjöl­skylda henn­ar, sem búa á Eyr­ar­bakka, þurftu að rýma hús­næði sitt um helg­ina eft­ir að eld­ur braust út vegna spreng­ing­ar í raf­hlaupa­hjóli.

Í færslu sinni á Face­book-hópn­um Hjálp­umst að á Eyr­ar­bakka og Stokks­eyri og ná­grenni greindi Birna frá því að hún og maður henn­ar hefðu verið að horfa á þátt í sjón­varp­inu þegar rosa­leg­ur hvell­ur hljómaði úr þvotta­hús­inu. 

Þá hafi raf­hlaða í raf­hlaupa­hjóli sem var í hleðslu í þvotta­hús­inu þeirra sprungið og leitt til bruna. Frá þessu greindi sunn­lenski fréttamiðill­inn DFS í gær.

„Gard­ín­urn­ar í stof­unni flökta út um glugg­ann,“ seg­ir Birna í sam­tali við mbl.is. „Og við hlaup­um bara út á gang og þá er allt orðið svart af reyk.“

Rafhlaðan í rafhlaupahjólinu sprakk með háum hvelli.
Raf­hlaðan í raf­hlaupa­hjól­inu sprakk með háum hvelli. Skjá­skot/​DFS

Basl að koma öll­um út

Þvotta­húsið er við sama gang og svefn­her­bergi sona þeirra þriggja. Hjón­in höfðu þá hraðar hend­ur. Birna sótti dreng­ina inn í her­berg­in sín á meðan Ívar, eig­inmaður henn­ar, sótti slökkvi­tæki og hóf að slökkva eld­inn í hlaupa­hjól­inu.

Þá náði hún að fá tvo af drengj­un­um úr húsi en átti í basli við að vekja þann þriðja.

„Þeir fara út, sem sagt, miðjustrák­ur­inn minn og elsti en ég næ ekki að vekja yngsta. Og ég endaði með því að ég þurfti að draga hann fram á gang með öll­um lífs og sál­ar kröft­um til þess að hann vaknaði loks­ins.“

Ívar náði sem bet­ur fer að slökkva eld­inn með slökkvi­tæk­inu en enn fyllti reyk­ur ganga hús­næðis­ins. Birna seg­ir að það hafi komið slökkviliðinu á óvart að eig­inmaður henn­ar hafi náð að slökkva eld af þess­ari stærð með kol­sýruslökkvi­tæki, þar sem um raf­hlöðueld var að ræða en slökkvi­tækið var aðallega hannað fyr­ir olíu- og gaselda.

All­ir heil­ir á húfi

Slökkviliðsfólk reykræsti hús­næðið. Hjón­in fengu væga reyk­eitrun og Ívar fékk súr­efn­is­gjöf í sjúkra­bíl en Birna seg­ir að all­ir séu heil­ir á húfi. „Dreng­irn­ir sluppu al­veg og það er al­veg ótrú­legt því að við náðum þeim nátt­úru­lega út á nokkr­um sek­únd­um.“

Birna grein­ir frá því í færslu sinni að fjöl­skyld­an hafi síðan farið nátt­bux­um og nær­föt­um á þrjá mis­mun­andi dval­arstaði þessa nótt­ina. Hún seg­ir að þau geti ekki fengið að fara aft­ur í húsið fyrr en á miðviku­dag eða fimmtu­dag í næstu viku. Nú dvel­ur fjöl­skyld­an í sum­ar­bú­stað á Eyr­ar­bakka sem er í eigu syst­ur Birnu.

Mik­il­vægt að fleiri lendi ekki í þess­ari mar­tröð

Birna vill vara aðra raf­hlaupa­hjóla­eig­end­ur við og minna þá á að hafa aðgát þegar verið er að hlaða raf­hlaupa­hjól, en tæk­in hafa orðið afar vin­sæl á sein­ustu árum og marg­ir sem hlaða þau inn­an­dyra.

„Það er mér rosa­legt hjart­ans mál, af því ég veit að fólk er að hlaða þetta inni hjá sér, við hliðina á rúm­un­um sín­um, allsstaðar, að þetta komi ekki fyr­ir ann­ars staðar— að það lendi eng­inn ann­ar í þess­ari mar­tröð. Þetta var bara mar­tröð.“

Hús­næðið ótryggt en ná­grann­ar koma til hjálp­ar

Hún seg­ir að trygg­ing­ar fjöl­skyld­unn­ar hafi fallið úr gildi um miðjan fe­brú­ar en Eyr­bekk­ing­ar og Stokks­eyr­ing­ar hafi marg­ir lagt fjöl­skyld­unni hönd á plóg.

„Við búum í svo æðis­legu sam­fé­lagi að for­eldr­ar í 7. bekk í Eyr­ar­bakka- og Stokks­eyr­ar­skóla hafa sett á fót söfn­un fyr­ir okk­ur. Miðjustrák­ur­inn okk­ar er sem sagt í þeim bekk og það er bara ótrú­legt hvað all­ir eru boðnir og bún­ir.“

Hún kveðst þakk­lát fyr­ir að fólk, og jafn­vel að fólk sem hún þekki ekki, hafi hjálpað fjöl­skyld­unni.

Hægt er að leggja inn á hjálp­ar­sjóð fjöl­skyld­unn­ar:

Reikn­ings­núm­er: 0370-26-025500
Kennitala: 0607862409

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert