Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af gesti sundlaugarinnar í Breiðholti í dag en sá hafði ætlað sér í laugina án þess að hafa meðferðis tilskilinn sundfatnað auk þess sem hann hugðist heldur ekki greiða fyrir að nýta jarðvarmaauðlindina.
Vísaði lögregla manninum á brott og lauk málinu þar.
Í umdæmi sömu lögreglustöðvar, stöðvar þrjú fyrir Kópavog og Breiðholt, var brotist inn í geymslur í Breiðholti og rafmagnshjóli stolið þar auk annars. Þá var tilkynnt um skemmdarverk á bifreið í bílakjallara í Kópavogi og sinubruna í Efra-Breiðholti.
Þar hlupu vegfarendur til og slökktu eldinn en slökkvilið kom engu að síður á vettvang og gerði ráðstafanir til að tryggja að eldurinn gysi ekki upp að nýju.