Áhyggjufullir foreldrar mótmæltu úrræðaleysi í leikskólamálum í Reykjavík fyrir fund borgarráðs í morgun. Stór hluti barna verður áfram vera á biðlista eftir plássi á leikskóla eftir að fyrstu innritun lýkur.
Í svari við fyrirspurn mbl.is kemur fram að 2.032 börn frá sex mánaða aldri á biðlista. Þar af eru 782 börn 18 mánaða og eldri. 225 börn á listanum eru í vistun á sjálfstætt starfandi leikskólum en hafa sótt um vist á borgarreknum leikskóla. Samkvæmt Reykjavíkurborg munu 1.178 börn fá pláss í borgarreknum leikskólum í þessari fyrstu innritunarlotu.
Um 30 foreldrar voru samankomin fyrir borgarráðsfundinn í morgun. Thelma Björk Wilson foreldri í Vesturbæ, þar sem neyðin er einna brýnust, segir að lítið hafi verið um svör þegar borgarfulltrúar meirihlutans ræddu stuttlega við þá fyrir fundinn.
Hún segir ánægjulegt hvernig foreldrar sem hópur standi saman í málinu. „Það er ekki nóg að koma með einhver loforð og segjast ætla að bæta hlutina en gera svo ekkert. Það þarf að sýna fram á einhverja framvindu í þessum málum. Að koma með einhverjar mótvægisaðgerðir hvort sem það er til tímabundnar á meðan ástandið er svona eða til langs tíma,“ segir Thelma.
Hún segir að önnur mótmæli séu boðuð á þriðjudag þegar borgarstjórn kemur saman.