Sævar Helgi Bragason, eitt helsta átorítet landsins á vettvangi geimvísinda og stjörnufræði, reyndist sannspár á Stjörnufræðivef sínum þegar hann boðaði þar björt og kröftug norðurljós í gær.
Einar skáld Benediktsson átti að hafa beitt sér fyrir sölu íslenskra norðurljósa. Líklega er þar þó lífseig flökkusaga á ferð telur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sem ritaði ævisögu hans, en Vísindavefur Háskóla Íslands spurði Guðjón út í meinta norðurljósasölu í tilefni fyrirspurnar sem vefnum barst á sínum tíma.
Kristófer Liljar, sem starfar á Morgunblaðinu við hvers kyns framleiðslu og vinnslu myndskeiða, var á ferð um Þingvelli og Kjós í nótt og fangaði leiktjöldin grænu með tökubúnaði sínum af stöku listfengi svo sem lesendur geta notið af meðfylgjandi skeiði. Tónlist á Brian Eno sjálfur.
Í Þorskfirðinga sögu segir svo af sýn Gull-Þóris á Hálogalandi í Noregi: „...sá Þórir, hvar eldr var, nær sem lýsti af tungli, ok brá yfir blám loga. Þórir spurði, hvat lýsu þat væri. Úlfr segir: „Ekki skulu þér þat forvitnast, því at þat er ekki af manna völdum.“ Þórir svarar: „Því mun ek þó eigi vita mega, þótt tröll ráði fyrir?““