Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í dag þrjá grunaða innbrotsþjófa sem hittust fyrir á vettvangi í Gerðunum þar sem tilkynnt hafði verið um innbrot í geymslur. Voru hinir handteknu vistaðir í þágu rannsóknar en þýfinu komið til réttmætra eigenda.
Þá stöðvaði lögregla akstur ökumanns sem grunaður var um ölvun og reyndist öndunarsýni frá honum töluvert yfir mörkum. Fór lögregla með ökumanninn í blóðsýnatöku og var hann frjáls ferða sinna að henni lokinni.
Í Austurbænum var lögregla fengin til að fjarlægja mann sem óvelkominn var á stofnun nokkurri. Þar hafði maðurinn komið sér fyrir, tekið hreinsunarspritt traustataki og hafið neyslu þess. Hafði hann sig á brott eftir að lögregla hafði vandað um við hann.
Í Túnunum svaf maður í ruslatunnugeymslu og reyndist við athugun lögreglu auk þess vera með hníf á sér. Má sá eiga von á kæru fyrir vopnalagabrot en lögregla gerði hnífinn upptækan.
Þá var maður til almennra leiðinda og vandræða á Laugavegi og þurfti lögregla að vísa honum þaðan á brott.