Fjórir eru í framboði til tveggja embætta stjórnar Vinstri grænna(VG). Kjörið verður í embættin á landsfundi flokksins sem fer fram um helgina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinstri grænum.
Í embætti ritara stefna þær Jana Salóme Ingibjargar- og Jósepsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, og Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði og formaður VG á Vestfjörðum.
Í framboði til gjaldkera eru þau Líf Magneudóttir borgarfulltrúi og Steinar Harðarson vinnuverndarráðgjafi og athafnastjóri.
Í tilkynningunni kemur fram að á annan tug félaga Vinstri grænna hafi boðið sig fram til stjórnarsetu, en kosið er um samtals ellefu sæti í stjórn og fjögur til vara.
Þá hefur ekki borist framboð til formanns og varaformanns, en í þeim embættum sitja sem kunnugt er Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Framboðsfrestur rennur út annað kvöld.
Á landsfundi verða sömuleiðis kosnir fjörtíu fulltrúar í flokksráð og tíu til vara. Framboðsfrestur í flokksráð rennur út á laugardag.