Gert að starfa „úti á gangi“ eða „í fiskabúri“

Arngrímur Vídalín Stefánsson, lektor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við …
Arngrímur Vídalín Stefánsson, lektor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Háskóli Íslands og Framkvæmdasýsla ríkisins hyggjast nú skikka kennara og akademíska starfsmenn til þess að nota opin rými í stað hefðbundinna skrifstofa. Undirskriftalisti til þess að mótmæla þessum breytingum hefur verið stofnaður. Lektor við háskólann segir opin vinnurými tilgangslaus. Þá séu verkföll líkleg ef vinnurými verði ekki tryggt. 

Forsprakki undirskriftalistans segir undirritanir nálgast fimm hundruð sem sé um það bil helmingur akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands. 

„Það hefur verið mikið um það rætt opinberlega að það standi til að flytja [menntavísindasvið] á Hótel Sögu. Svo kemur á daginn að í raun og veru eigum við bara að fá einhverjar tvær hæðir í byggingunni og allt saman opin vinnurými. Þannig í raun og veru lít ég svo á að það sé verið að sparka okkur út af skrifstofum okkar og ekki verið að láta okkur frá neitt í staðinn,“ segir Arngrímur Vídalín Stefánsson, lektor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands.

Ný áform séu dæmi um skammsýni, aðstaðan virki ekki

Hann segir ný áform um opin vinnurými og engar skrifstofur koma frá Framkvæmdasýslu ríkisins. Nýjar reglur eigi að gilda um alla opinbera vinnustaði.

„Ég held að þetta sé ákveðin skammsýni vegna þess að við erum ekki bara kennarar við erum rannsakendur. Ég er sjálfur með átta bókaskápa á minni skrifstofu og ég nota allar þessar bækur við mínar rannsóknir á hverjum einasta degi.“

Ekki sé reiknað með að starfsfólk sé með bækur við vinnurýmin og þar að auki sé ekki ljóst hvort þau geti verið með föst skrifborð.

 „Í raun og veru er sú aðstaða sem á að bjóða okkur upp á gjörsamlega tilgangslaus, við munum ekki nota hana. Þetta hefur verið reynt við háskóla erlendis, til dæmis í Malmö. Það hefur þurft að snúa við þessari þróun alls staðar þar sem þetta hefur verið reynt vegna þess að þessi aðstaða hreinlega virkar ekki. Það er svolítið eins og Franmkvæmdasýsla ríkisins hafi hugsað einhverja reglu fyrir opinbera vinnustaði sem að í raun og veru virkar ekki fyrir Háskóla Íslands,“ segir Arngrímur.  

Yfirstjórn háskólans ætli ekki að taka slaginn

Hann bendir á að undanþáguheimild sé til staðar á nýju reglugerðinni sem fyrirskipar fyrrnefndar breytingar en Háskóli Íslands hafi ekki beðið um slíka.

„Það er eins og þau hafi bara ákveðið að lúffa í upphafi.“

Þegar því er velt upp hvort að breytingin hafi komið á borð rektors áður en að ákvörðun var tekin segir Arngrímur svo vera.

„Það sem ég hef heyrt frá honum er að stjórnvöld segi bara þvert nei, þetta sé bara það sem skuli gerast. Í staðinn fyrir að taka slaginn þá eru háskólayfirvöld núna byrjuð að reyna að sannfæra okkur um að þetta sé í raun og veru frábær hugmynd.“

Þannig að yfirstjórn háskólans er ekki mótfallin þessu?

„Ég held að hún sé mótfallin þessu í raun og veru en hún bara ætlar ekki að taka slaginn.“

Eigi að funda með nemendum í fiskabúrum

Þegar hann er spurður út í það hvort að akademískt starfsfólk þurfi þá að taka öll gögn með sér til og frá vinnu segir hann svo vera.

„Við höfum enga aðstöðu til þess að geyma þau. Hins vegar er gert ráð fyrir því að það sé hægt að bóka sérstök fundarherbergi sem verða eins og einskonar fiskabúr þar sem allur geta séð inn. Við eigum að bóka svoleiðis rými sérstaklega í hvert einasta skipti sem við eigum von á símtali eða fundi,“ segir Arngrímur.

Hann nefnir að um ákveðna mismunun sé að ræða þegar reiknað sé með að starfsfólk sé á ferðinni fram og til baka alla daga.

„Það sem er svo sérstaklega galið við þetta er að við getum sinnt öllum okkar störfum í tiltölulega litlu rými sem er einkaskrifstofa. En þess í stað þá er ætlast til þess að við séum flakkandi á milli rýma daginn út og inn. Það er til dæmis ekki gert ráð fyrir því að háskólakennarar glími við fötlun, að þeir noti hjólastól eða séru gigtveikir og mér finnst þetta algjörlega út í hött.“

„Ég þarf að gera þetta allt saman á einhverjum gangi“ 

Þá hafi starfsfólki verið sagt að það sé of óumhverfisvænt að vera með skrifstofur fyrir alla. Hann veltir því fyrir sér hvort að það að rífa veggi innan úr öllum byggingum sé ekki einnig óumhverfisvænt.

Þá sé ómögulegt að líta á ákvörðunina öðruvísi en svo að það sé verið að taka af fólki vinnuaðstöðu án þess að gefa neitt í staðinn.

„Ég þarf að semja próf og ég þarf að fara yfir verkefni og ég þarf að gera þetta allt saman á einhverjum gangi,“ segir Arngrímur ósáttur en stjórnendur háskólans hafi forðast að ræða breytinguna við starfsfólk.

 „Mjög margir háskólakennarar sem ég hef talað við eru fyrst að heyra um þetta núna vegna þess að stjórn háskólans hefur forðast að gera hreint fyrir sínum dyrum.“

Verkfall mögulegt

Hann telur ólíklegt að akademískir starfsmenn menntavísindasviðs muni flytja á Hótel Sögu ef engin aðstaða er til staðar.

„Þetta er stórt kjaramál fyrir okkur. Í raun og veru þá tel ég að nú sé kominn tími til þess að binda vinnuaðstöðu okkar í kjarasamninga. Mér skilst að Félag prófessora ætli að gera þessa kröfu en Félag prófessora hefur aðeins samningsrétt fyrir prófessora ekki fyrir okkur hin. Svo er stóra spurningin hvað gerist ef því verður mætt með mikilli mótstöðu af hálfu viðsemjenda. Við erum alveg tilbúin til þess að leggja niður störf,“ segir Arngrímur.

Hann bendir á að það sé mjög einfalt fyrir starfsfólk að lama ríkisháskólana.

Aðspurður hvort það þýði þá að verkfall yrði boðað ef kröfum þeirra yrði ekki mætt segist Arngrímur ekki getað talað fyrir alla. Hann telji þó líklegt að mótstaða háskóla og ríkis myndi enda með verkfalli.

„Við eigum enga verkfallssjóði vegna þess að það hefur aldrei komið til umræðu að háskólakennarar fari í verkfall. Ég held nú samt að við getum sýnt það mjög snögglega hvers virði við erum.“

Að lokum hvetur hann ríkisstjórnina til þess að endurskoða málið og grípa í taumana.

„Ég get ekki ímyndað mér að Katrín Jakobsdóttir sé sjálf hlynnt þessu og ég myndi vilja óska þess að hún tæki þetta persónulega til endurskoðunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert