Óhætt er að segja að mikið sé um að vera í Laugardalshöll í dag og næstu daga, þar sem fram fer Íslandsmót iðn- og verkgreina undir heitinu Mín framtíð.
Á annað hundrað manns keppa í 22 fjölbreyttum greinum, allt frá bakaraiðn til rafvirkjunar en auk mótsins eru 30 menntaskólar að kynna námsframboð sitt í iðn- og verkgreinum. Um það bil 8.000 grunnskólanemar hafa boðað komu sína.
„Höllin er stútfull af ungu fólki sem er að velja sér nám – skoða það sem stendur þeim til boða,“ segir Kristjana Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Minnar framtíðar.
„Svo eru þau líka að fylgjast með keppninni. Þetta er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt og gaman að fylgjast með keppninni,“ segir hún en sigurvegarar 11 greina munu koma til með að keppa á Evrópumóti iðn- og verkgreina sem fer fram í Gdansk í Póllandi í september.
Mótið var sett í morgun af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, eftir tónlistaratriði frá Menntaskóla í tónlist. Í kjölfarið spreytti Ásmundur sig sjálfur í áhugamannaflokki mótsins. Klukkan 13 opnaði húsið síðan öllum.
„Svo er sérstakur fjölskyldudagur á laugardaginn, þar sem við bjóðum sérstaklega velkomin þau sem vilja.“
Markmið viðburðarins kveður Kristjana vera að sýna fram á hversu fjölbreytt nám hægt sé að velja, þrátt fyrir smæð landsins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi einmitt haft orð á því þegar hann kom í heimsókn í morgun.
„Þau eltu hann á röndum,“ segir Kristjana og hlær. „Hann fékk nokkur buff í gjöf.“
Spurð hvað beri hæst í Höllinni segir hún framboðið fjölbreytt. „Þar á meðal er ný iðngrein, sem heitir jarðvirkjun. Þeir eru með stórar vinnuvélar hér úti og svo eru vinnuvéla- og gröfuhermar hér fyrir innan.“
Segir hún grænu greinarnar einnig áberandi í höllinni. „Hér geturðu séð íslenska heimaræktaða banana og tómata- og skógræktin tekur mikið pláss. Framtíðin liggur í grænu greinunum,“ segir hún og bætir við að mikið úrval sé af nýsköpunargreinum sem stuðla að sjálfbærni.
„Iðnaðurinn stendur mjög framarlega þar.“