Úrskurður Persónuverndar, um að Íslensk erfðagreining hafi brotið á persónuverndarlögum í þremur málum sem vörðuðu notkun blóðsýna Covid-19-sjúklinga, var ógiltur fyrir dómi í dag.
Íslensk erfðagreining stefndi Persónuvernd og Landspítalanum í nóvember á síðasta ári, vegna úrskurðar Persónuverndar í þremur málum sem vörðuðu skimanir og öflun samþykkis á notkun blóðsýna til vísindarannsókna.
Fyrirtækið taldi niðurstöðu Persónuverndar ranga og líta fram hjá því að fyrirtækið hafi verið að vinna fyrir sóttvarnalækni og Landspítalann.
Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í málinu í nóvember á síðasta ári að Íslensk erfðagreining og Landspítalinn hefðu brotið persónuverndarlög þegar blóðsýni úr sjúklingum með Covid-19 á Landspítala hefðu verið send til rannsókna hjá ÍE án leyfis vísindasiðanefndar. Umrædd sýni voru tekin 3.-7. apríl 2020, en vísindasiðanefnd samþykkti rannsóknina 7. apríl.
ÍE bendir á að fyrirtækið hafi verið að vinna fyrir sóttvarnalækni og stjórnvöld við alvarlegt hættuástand í samfélaginu og segir Persónuvernd með öllu hafa litið fram hjá samfélagsaðstæðum í úrskurði sínum.
Einnig taldi ÍE að úrskurður persónuverndar hefði beinst að röngum aðila þar sem blóðsýnin voru tekin af Landspítalanum í samráði við sóttvarnalækni í þeim tilgangi að nýta þau til vísindarannsókna, ekki ÍE.
Í samtali við mbl.is í dag sagði Ingvi Snær Einarsson, lögmaður hjá ríkislögmanni, lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu, enda dómurinn nýuppkveðin. Hann kvaðst sjá fram á að fara yfir dómsúrskurðinn og ákveða næstu skref í samráði við Persónuvernd.
Var Persónuvernd og Landspítala gert að greiða Íslenskri erfðagreiningu tvær milljónir í málskostnað.