Tilkynnt var um einstakling að kasta munum úr íbúð sinni í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við hann. Sagðist hann hafa verið í ójafnvægi en hefði aftur á móti róast og lofaði að haga sér vel.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Sá sem ók hraðast var á 143 km hraða á Reykjanesbraut, sá sem ók næsthraðast var tekinn á Miklubraut á 136 km hraða og sá þriðji mældist á 126 km hraða á Kringlumýrarbraut.
Í Kópavogi var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki, auk þess sem ökumaður var kærður í Reykjavík fyrir að aka gegn rauðu umferðarljósi. Hann reyndist einnig ölvaður.