Mosfellsbær hyggst semja við Korpukot sem er sjálfsætt starfandi leikskóli í Grafarvogi í Reykjavík um inntöku 50 leikskólabarna í ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í fundargerð fræðslunefndar Mosfellsbæjar.
Segir í samþykktinni að með þessu sé verið að lágmarka óvissu um leikskólapláss. Fyrir eru 22 börn úr Mosfellsbæ í leikskólanum. Í heild verða því 72 börn úr Mosfellsbæ í skólanum.
Korpukot er staðsett við Fossaleyni gegnt Egilshöll.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, telur þetta dæmigert fyrir andvaraleysi Reykjavíkurborgar í leikskólamálum. Þá sé þetta dæmi um viðhorf borgarinnar til sjálfstætt starfandi leikskóla. „Þetta er kýrskýrt dæmi um andvaraleysi í leikskólamálum í Reykjavík. Samskipti hafa verið slæm af borgarinnar hálfu gagnvart sjálfstæðum leikskólum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is
„Auðvitað er manni brugðið að sjá þennan samning. Að borgin hafi ekki verið fyrri til að átta sig á því í hvað stefndi og tala við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík um að taka við þeim börnum sem ekki komast að er ótrúlegt,“ segir Hildur.
Hún segir að sjálfstæðismenn hafi ítrekað lagt til breytingar á því hvernig málum er háttað gagnvart sjálfstætt starfandi leikskólum. Þeir búa við skert framlög ef miðað er við borgarrekna skóla. „Það hefur ekki verið unnið nægjanlega vel með sjálfstætt starfandi leikskólum í Reykjavík. Þegar samskiptin eru ekki betri en raun ber vitni þá kemur ekkert sérstaklega á óvart að skólarnir semji við önnur sveitafélög. En það er auðvitað algjör áfellisdómur yfir því hvernig borgin er að halda á leikskólavandanum. Núna þegar uppi er þessi bráðavandi,“ segir Hildur.