Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að gerð verði úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er í minnihluta í bæjarstjórninni, lagði tillöguna fram í bæjarráði. Verður hún að óbreyttu tekin til umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag.
Ragnar Sigurðsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, segir að tvær meginástæður séu fyrir tillögunni. „Annars vegar er það reksturinn. Hann gengur illa eins og hjá fleiri sveitarfélögum en sigið hefur á ógæfuhliðina frá 2018. Hann er orðinn það ósjálfbær að við við þurfum að núllstilla okkur og leita leiða til að snúa þróuninni við. Hins vegar hefur verið mikil starfsmannavelta á bæjarskrifstofunni sjálfri og þar hefur örlað á óánægju,“ sagði Ragnar þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.