Stór hluti af séreignarsparnaði landsmanna hefur verið nýttur til kaupa á íbúðarhúsnæði og til að létta lánabyrði íbúðareigenda.
Nýtt yfirlit sem fékkst í fjármálaráðuneytinu leiðir í ljós að landsmenn hafa nýtt samtals rúmlega 132 milljarða kr. af séreignarsparnaði sínum í þau úrræði í húsnæðismálum sem þeim hafa staðið til boða frá árinu 2014 og fram í febrúar síðastliðinn. Um 81 þúsund manns hafa nýtt einhver þessara úrræða á þessu tímabili. Hafa langflestir kosið að nýta viðbótariðgjaldið til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána og ráðstafað um 103 milljörðum kr. til þess. Ríflega 17 þúsund manns hafa nýtt sér heimild til að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað sinn til kaupa á sinni fyrstu íbúð eða til þess að lækka lán, samtals um 24 milljarða kr.
Í frumvarpsdrögum fjármálaráðherra er lagt til að heimild til úttektar á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar verði framlengd til 31. desember 2024 en að óbreyttu rennur hún út 30. júní nk. Þar kemur fram að á síðustu tveimur árum hefur um einn milljarður verið greiddur inn á höfuðstól fasteignalána um 20 þúsund einstaklinga í hverjum mánuði.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.