Agla María Albertsdóttir
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þvertekur fyrir að hann hafi ásakað Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingar, að það væri ekkert að marka hana þar sem hún hefði grætt svo mikið á flóttafólki.
Ásmundur segir í samtali við mbl.is að hann hafi einfaldlega sagt við sessunaut sinn Sigurjón Þórðarson að hagsmunagæsla fyrir lögfræðinga sem væru að vinna fyrir hælisleitendur hefði ekki gengið upp í þessu máli. Hann telur talsmáta Helgu Völu á þinginu ekki boðlegan.
„Ég var ekki að ásaka hana um neitt en þegar ég segi þetta við manninn þá segir hún stundarhátt að ég geri ekki greinarmun á því þegar ég ljúgi eða segi satt og bætir við að ég sé viðurstyggð," segir Ásmundur.
Þessi orðaskipti áttu sér stað eftir atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið á Alþingi. Ásmundur telur málatilbúnað stjórnarandstöðunnar hafa verið fyrir neðan allar hellur í þessu máli.
„Það var talað um þetta mál í u.þ.b. 150 klukkustundir og er þetta mikil bjögun á lýðræðinu. Ég tel að ekki nokkru þjóðþingi í Evrópu myndi detta það í hug að bjóða þjóðinni upp á svona málsmeðferð,“ segir Ásmundur.