Samkomulag hefur náðst um skilmála um fyrirhuguð kaup Festi, móðurfélags Krónunnar á versluninni Lyfju, nú í eigu móðurfélagsins SID. Sammæltust báðir aðilar um að heildarvirði Lyfju sé 7,8 milljarðar í undirrituðu samkomulagi í dag.
Í kjölfarið munu viðræður um kaupsamning hefjast, og munu þær byggjast á þeim forsendum og skilmálum sem undirritaðar voru í dag. Gert er ráð fyrir að viðskiptunum verði lokið í byrjun næsta árs gangi allt eftir áætlun.
Í tilkynningu frá Festi í dag kemur fram að endanlegt kaupverð hlutafjár muni „ráðast af skuldastöðu félags við afhendingu ásamt gengi hlutabréfa í Festi á þeim tíma“,
Viðskiptin eru háð skilyrðum en þau eru meðal annars að samkomulag náist um endanlegan kaupsamning, og að hluthafafundur kaupanda samþykki ráðstöfun hlutafjár vegna viðskiptanna.
Festi á og rekur alls 87 fasteignir og rekur meðal annars Krónuna, ELKO og N1 og var heildarvelta þeirra 131 milljarðar á síðasta ári.