Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur sett á fót landsteymi um farsæld barna í skólum.
Landsteymið, sem sem nefnist LAUF, er ætlað að styðja við börn, foreldra og starfsfólk skóla þegar alvarleg mál koma upp, á borð við ofbeldismál eð aúrræðaleysi í málum barna með fjölþættan vanda. Þetta segir á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að landsteyminu sé ætlað að „brúa bilið á meðan verið er að innleiða ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, undirbúa frumvarp til nýrra laga um heildstæða skólaþjónustu og koma á fót nýrri þjónustustofnun á sviði menntamála“.
Börn, foreldrar og starfsfólk skóla munu koma til með að geta leitað til landsteymisins sem mun veita ráðgjöf og stuðning bæði almenna en einnig á vettvangi. Áhersla er lögð á „einföld og skilvirk samskipti“ og „skýrt verklag“.
„Í samtölum mínum við skólasamfélagið síðustu mánuði hef ég skynjað mikinn stuðning við þær breytingar sem fram undan eru um heildstæða skólaþjónustu en jafnframt sterkt ákall um að við þurfum samhliða að stíga strax inn með öflugri hætti í þeim áskorunum sem þegar eru til staðar.
Við erum að setja landsteymið á laggirnar einmitt til að bregðast við þessari þörf, og stíga inn til þess að veita stuðning í alvarlegum málum sem koma upp,“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra.