Mengun í lofti mældist mjög mikil við leikskólann Lund í Reykjavík í gær, samkvæmt loftgæðaupplýsingakerfi Umhverfisstofnunar.
Mengunin jókst til muna um klukkan níu að morgni og fór klukkustundargildi svifryks þá upp í 119,8 míkrógrömm á rúmmetra, eða yfir heilsuverndarmörk.
Í kjölfarið gaf heilbrigðiseftirlit borgarinnar út viðvörun þar sem mælst var til þess að þeir sem séu viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn, ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.
Enn átti þó meiri mengun eftir að mælast, þó að á milli klukkan 10 og 15 drægi verulega úr henni.
Þannig mældist klukkustundargildið 427,7 míkrógrömm á rúmmetra klukkan 16. Hafði svifryksmengunin því nærri fjórfaldast frá mælingunni um morguninn, sem þótti gefa efni til viðvörunar.
Loftgæðamælirinn var settur upp við leikskólann í lok síðasta árs.
Heilbrigðisfulltrúi segir heilbrigðiseftirlitið undrandi yfir þeim gildum sem mælirinn sýndi í gær. Leikskólastjóri Lundar telur sig þó vita af hverju vandinn stafi.
Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir tölurnar hjá Lundi þær verstu sem hún hafi séð í Reykjavík á þessu ári. Svava segir heilbrigðiseftirlitið fylgjast grannt með tölunum og senda út tilkynningar verði gildin of há.
Segir hún að malarvegur, sem liggur að leikskólanum, geti útskýrt gildin að hluta til. Ekki sé þó nægur vindur á svæðinu til að vegurinn valdi svo háum gildum. Því sé vert að kanna mengun sem gæti stafað af hafnarsvæðinu nálægt leikskólanum.
„Við erum að sigla inn í þetta klassíska svifrykstímabil núna,“ segir Svava. Bendir hún á að svifryksmengun gjósi upp þegar vegir þorni og því megi búast við því að sjá hærri gildi næstu mánuði.
„Svo erum við náttúrulega tiltölulega nýbúin að setja stöðina okkar á þennan stað, þannig að við höfum í rauninni enga reynslu af því hvernig rykið hagar sér þarna.“
Valgerður H. Valgeirsdóttir, leikskólastjóri Lundar, segir starfsfólk leikskólans hafa mælt loftgæði á svæðinu sjálft áður en nýi mælirinn kom til.
Hún segist telja að mengunin stafi af gamla malarveginum. Hún og aðrir hafi margoft reynt að vekja athygli á þeirri mengun sem vegurinn valdi þegar þurrt er úti.
Valgerður kveðst ekki skilja þá ákvörðun að setja mælinn beint við skraufþurran malarveginn.
Hver sem keyri niður hann geti skilið hvers vegna loftmengun mælist svo mikil, enda þyrlist rykið upp þegar keyrt sé á veginum og að leikskólanum.
„Þetta eru fjörutíu og eitthvað foreldrar sem koma hérna að morgni dags og síðla dags, þannig að það er ekki skrítið að loftmengun sé hérna upp úr öllu.“
Valgerður kveðst halda börnunum inni við kringumstæður þar sem loftgæði mælist óholl, en Lundur er ungbarnaleikskóli og börnin því viðkvæmari vegna ungs aldurs.
Loftgæðin hafi þó ekki verið ástæðan fyrir inniveru barnanna í gær heldur hafi það verið frostið, enda fari þau ekki með ungabörn út í þeim kulda sem lá yfir borginni í gær.
Segir hún að ef mæla eigi loftmengun á hafnarsvæðinu og í kring væri betra að hafa mælinn annars staðar en við malarveginn hjá leikskólanum.
„Nema þeir komi og vökvi hérna á hverjum degi hjá okkur.“