Vilja sjá RAX strax

Ragnar Axelsson, oftar en ekki betur þekktur undir skammstöfuninni RAX, …
Ragnar Axelsson, oftar en ekki betur þekktur undir skammstöfuninni RAX, sem einkenndi ljósmyndir hans í Morgunblaðinu, um áratuga skeið, hefur marga fjöruna sopið bak við linsuna og nú þyrpast íbúar Hamborgar á sýningu hans. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson

„Þetta var alveg ótrúlegt, það var 150 metra röð og klukkutíma bið að komast inn, maður var bara þarna eins og bjáni að tala við fólk allt kvöldið,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari hress í bragði, oftar en ekki betur þekktur sem RAX fyrir listsköpun sína gegnum linsuna um áratuga skeið.

Sýning hans, Þar sem heimurinn bráðnar, Where the World is Melting, var opnuð í Deichtorhallen í Hamborg í Þýskalandi í gær – og það með látum svo sem lesa má út úr lýsingu Ragnars sem er hæstánægður með viðtökur Þjóðverja.

Gestir við opnun sýningarinnar, 150 metra löng röð myndaðist við …
Gestir við opnun sýningarinnar, 150 metra löng röð myndaðist við inngang Deichtorhallen. Ljósmynd/Deichtorhallen

Viðtökurnar góðu eru reyndar ekki þær fyrstu í Þýskalandi en sýning, sem í grunninn er sú sama og nú stendur yfir í Hamborg, var opnuð í München í miðjum heimsfaraldri eins og Ragnar greindi Silju Björk Huldudóttur, menningarblaðamanni Morgunblaðsins, frá í viðtali í blaðinu í gær, fimmtudag.

Sú sýning birtist íbúum Bæheims í Kunstfoyer, virtu safni Versicherungskammer Kulturstiftung í desember 2021 og sáu hana um 45.000 manns, eftir því sem Ragnar greindi Silju frá, og þótti gott í miðjum heimsfaraldri þar sem stífar reglur giltu um samkomur og væntanlegir gestir þurftu að bóka tíma gegnum netið.

Fleira er í boði á sýningu Ragnars en að rölta …
Fleira er í boði á sýningu Ragnars en að rölta um uppljómaða sýningarsali. Ljósmynd/Deichtorhallen

„Þetta er gömul lestarstöð sem var breytt í safn,“ heldur Ragnar áfram við mbl.is um sýninguna í Hamborg. „Þetta eru norðurslóðamyndirnar mínar, það sem hefur verið að koma út í bókunum mínum, Hetjur norðurslóða og Jökullinn, þetta er Ísland, Síbería, Grænland og þarna eru fyrstu myndirnar sem ég tók, þegar ég var tíu ára, þetta er svolítið „retrospective“ og þetta byrjaði í München, Hamborg er númer tvö og svo fer þetta um heiminn, ég veit ekkert hvað er næst, þau stjórna því sem hönnuðu sýninguna,“ segir ljósmyndarinn góðkunni.

Hönnuðirnir sem hann nefnir eru þau Einar Geir Ingvarsson, náinn samstarfsmaður Ragnars síðustu árin, Ingo Taubhorn og Isabel Siben en uppsetningin í Hamborg stendur til 18. júní. Gestir á opnunardaginn í gær voru um 1.500 og segir Ragnar að ef svo vel gangi áfram geti heildargestafjöldi hæglega náð 100.000 manns á sýningartímanum.

Á sýningunni má sjá einhverjar af fyrstu ljósmyndum Ragnars en …
Á sýningunni má sjá einhverjar af fyrstu ljósmyndum Ragnars en þær tók hann tíu ára gamall árið 1968. Ljósmynd/Deichtorhallen

„Þarna er ég að sýna þær breytingar sem hafa orðið, ég er ekki að predika neitt, ég er bara að taka myndir af því sem er að gerast, ég er búinn að sjá þetta í fjörutíu ár,“ segir Ragnar, en eins og titill sýningarinnar gefur greinilega til kynna snúast efnistökin um þá hlýnun sem jarðarbúar upplifa nú – ekki kannski alveg þessa dagana reyndar hér í norðrinu – og haft hafa geysileg áhrif á jöklafar, sífrera og heilu vistkerfin.

Sjálfur er Ragnar á leið heim til Íslands á morgun en heimsækir sýninguna aftur í lok maí þegar vísindamenn koma í sýningarsalinn og halda erindi um hlýnun jarðar og fylgifiska hennar. „Þá þarf ég að koma hérna aftur en að öðru leyti ekki – ég er búinn að sjá þetta svo oft, ég nenni ekki að sjá þetta oftar,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari að skilnaði og hlær.

Gestir rýna í list Ragnars á sýningunni sem stendur til …
Gestir rýna í list Ragnars á sýningunni sem stendur til 18. júní í Hamborg en fer svo áfram um heiminn. Ljósmynd/Deichtorhallen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka