Landsfundur Vinstri grænna heldur áfram í dag en kjör stjórnar er á dagskrá síðdegis. Sé litið til framboðslista er ljóst er að breytingar á stjórn flokksins eru í farvatninu.
Katrín Jakobsdóttir er ein í framboði til formanns og það sama gildir um Guðmund Inga Guðbrandsson sem sækist eftir því að gegna varaformennsku áfram.
Núverandi ritari flokksins, Sóley Björk Stefánsdóttir, gefur ekki kost á sér að þessu sinni en þær Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir og Sigríður Gísladóttir freista þess báðar að taka við af Sóleyju.
Þá eru einnig tveir í framboði til stöðu gjaldkera en það eru þau Líf Magneudóttir og Steinar Harðarson. Rúnar Gíslason gegndi síðast þeirri stöðu en gefur, eins og Sóley, ekki kost á sér á þessu þingi.
Þrettán manns gefa kost á sér í stöðu meðstjórnanda en það eru þau Andrés Skúlason, Álfheiður Ingadóttir, Einar Bergmundur, Elín Björk Jónasdóttir, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Hólmfríður Árnadóttir, Klara Mist Pálsdóttir, Maarit Kaipainen, Maria Maack, Ólafur Kjartansson, Óli Halldórsson og Pétur Heimisson.
Samkvæmt dagskrá verður kynning á frambjóðendum klukkan 14.30 og stundarfjórðungi síðar verður gengið til kosninga.
Fundurinn fer fram í menningarhúsinu Hofi á Akureyri og stendur fram á morgun.