Fleiri og fleiri einmana og utanveltu

Dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði.
Dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, harmar að félagslegir töfrar séu á undanhaldi. Búið sé að telja okkur trú um að við megum ekki missa af neinu og fyrir vikið nálgumst við upplifanir okkar í auknum mæli gegnum snjalltækin, sem halda að okkur dægradvöl og neyslumenningu.

 

„Það er alltaf verið að selja okkur eitthvað – alls staðar. Og oftar en ekki eru það hlutir sem við höfum enga þörf fyrir. Þessi samskipti veita okkur ekki sömu nánd og hefðbundin mannleg samskipti gera. Töfrar geta líka verið fólgnir í því að hitta mann á förnum vegi. Það hefur kvarnast mikið úr sameiginlegum snertiflötum okkar í nærumhverfinu,“ segir hann. 

Kvíði og þunglyndi að aukast

Af þessu leiðir að við erum, að sögn Viðars, að færast úr samfélagi heildarhyggju yfir í samfélag einstaklingshyggju. „Það er engin tilviljun að kvíði og þunglyndi eru að aukast. Kulnun er líka angi af þessum meiði. Einmanaleiki hefur færst í vöxt og það segir sína sögu að stórþjóðir á borð við Bretland og Japan hafi sett á laggirnar sérstakt einmanaleikaráðuneyti. Um leið og dregur úr félagslegum samskiptum þá hverfur margt úr nærumhverfinu sem veitir okkur öryggi og uppfyllir þarfir okkar.“

Bandaríski félagsfræðingurinn C. Wright Mills benti á sínum tíma á, að ef fáir einstaklingar glíma við kvíða og vanlíðan þá er skýringanna að leita hjá einstaklingunum. „En ef kvíði og vanlíðan eru almenn vandamál þá bendir það til að eitthvað er að í formgerð samfélagsins,“ segir Viðar. „Er það mögulega vegna þess að tæknin er farin að stýra okkur og að við höfum glatað ákveðinni nánd sem bara fæst úr beinum samskiptum við aðra? Það er áhyggjuefni að firring virðist vera að aukast og að fleiri og fleiri séu einmana og utanveltu í samfélaginu.“

Hver í sínum bergmálshelli

Mikið hefur verið rætt og ritað um vaxandi skautun í samfélaginu og Viðar segir engan vafa leika á því að aukin hatursorðræða og ójöfnuður séu afleiðing þess félagslega kerfis sem sé að byggjast upp. Hver bergmálshellirinn sé upp af öðrum og meðan menn tali bara í sinn hóp og heyri aldrei sjónarmið annarra þá herðist þeir bara og forherðist í sínum skoðunum. „Um leið og menn setjast hins vegar niður með þeim sem hafa aðrar skoðanir en þeir sjálfir og hlusta á þeirra röksemdir og sjónarmið þá eykst víðsýnin og menn skilja aðra betur – og leyfa sér jafnvel að skipta um skoðun. Háttalag Elons Musks [í samskiptum við Harald Þorleifsson á Twitter] um daginn er gott dæmi um það. Við þurfum meira samtal þvert á stéttir og stöður.“

Nánar er rætt við Viðar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann hefur verið að rannsaka þessi mál með markvissum hætti undanfarna mánuði. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert