Óskað var eftir aðstoð lögreglu í fjölbýlishús í Breiðholti. Þar var einstaklingur að reyna að komast inn í íbúð þar sem hann bjó ekki.
Hann var ofurölvi og óviðræðurhæfur og gat ekki gefið lögreglunni upp hvar hann byggi. Er hann því vistaður í fangaklefa þangað til rennur af honum víman, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Tilkynnt var um ölvaðan einstakling til vandræða á veitingastað í hverfi 105 í Reykjavík. Hann var mjög ölvaður og óviðræðuhæfur og neitaði að yfirgefa veitingastaðinn. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa þangað til rennur af honum.
Tilkynnt var um líkamsárás í miðbænum, en einstaklingur sagðist hafa verið sleginn. Einnig barst tilkynning um slagsmál á veitingastað í hverfi 104.
Lögreglunni barst tilkynning um húsbrot og líkamsárás í hverfi 220 í Hafnarfirði. Einn var handtekinn á vettvangi og vistaður í þágu rannsóknar málsins.
Nokkuð var einnig um að bifreiðar voru stöðvaðar þar sem ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.