Hópur skíðamanna lenti í snjóflóði á Tröllaskaga, skammt suður af Ólafsfirði, og talið er að einn þeirra sé fótbrotinn. Tilkynning þess efnis barst um hálfeittleytið í dag. Þar kom einnig fram að enginn hefði týnst í snjóflóðinu.
Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, er þyrla Landhelgisgæslunnar á leiðinni á staðinn ásamt björgunarsveitum úr nágrenninu.
Hann segir snjóflóðahættu vera á Tröllaskaga og að sérstök aðgerðaáætlun hafi verið virkjuð í dag vegna slyssins.