Jón Björn Hákonarson, fráfarandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar og varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, mun víkja úr stjórn sambandsins þann 1. apríl. Hann sat fund stjórnar sambandsins í gær.
Jón baðst lausnar frá störfum sínum sem bæjarstjóri Fjarðarbyggðar þann 20. febrúar. Heimildir Morgunblaðsins hermdu að það hefði meðal annars verið vegna þess að Jón hafði legið undir ásökunum um að hafa ekki ekki staðið skil á fasteignagjöldum af sumarhúsi sínu.
Stuttu síðar var greint frá því að Jón hefði komist að samkomulagi við fjármálastjóra sveitarfélagsins um að Jón skyldi greiða gjöldin afturvirkt, samtals 72.504 krónur.
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga fundaði í gær og Jón Björn tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Hann segir stjórnina vera að meta umsækjendur um stöðu framkvæmdastjóra sambandsins í samráði við ráðgjafa.
Karl Björnsson tilkynnti í janúar að hann myndi láta af störfum sem framkvæmdastjóri sambandsins þann 1. maí. Samkvæmt frétt Austurfréttar var Jón Björn orðaður við stöðuna en þvertók fyrir það í frétt miðilsins að hann myndi sækja um starfið.