Bruninn sem varð í íbúðarhúsnæði í Grindavík í gær olli miklu tjóni, að sögn slökkviliðsins í Grindavík.
Greint var frá því í gær að eldur hafi brotist út í kjallaraíbúð hússins.
Pétur Benediktsson, varaslökkviliðsstjóri á Grindavík, segir að einn íbúi hafi verið staddur á efri hæð hússins þegar eldurinn kviknaði. Hann var kominn út þegar slökkviliðið mætti á vettvang.
Það tók slökkvilið um 20 til 30 mínútur að slökkva eldinn og reykræsta þurfti húsnæðið í kjölfarið.
Pétur segir of snemmt að segja til um hvar í húsnæðinu eldurinn kviknaði, en málið er nú í rannsókn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.