Skemmtileg uppákoma var á tónleikum Fjallabræðra í Háskólabíó í gærkvöldi er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var kallaður á svið til að skenkja forláta víski ofan í Fjallabræður. Flöskuna hafði hann gefið kórnum í afmælisveislu á Bessastöðum er Fjallabræður sungu Guðna til heiðurs.
Halldór Gunnar Pálsson kórstjóri hafði í upphafi tónleikanna dregið flöskuna fram, sagði sögu hennar og að í lok tónleikanna myndu kórfélagar fá einhvern ábyrgan áhorfanda í salnum til að hella í staupin fyrir kór og hljómsveit. Þegar síðan kom að þessu kallaði Halldór eftir sjálfboðaliða úr sal til að skenkja, og bárust þá böndin að Guðna, sem var meðal áhorfenda.
Hann tók áskoruninni, fór á svið og skenkti í staupin, um leið og hann fékk troðfullan salinn til að hrópa ferfalt húrra fyrir Fjallabræðrum. Um var að ræða afmælistónleika kórsins, sem Halldór Gunnar sagði að væri á óræðum aldri, allt eftir því við hvaða upphafspunkt væri miðað. Í öllu falli má fullyrða að Fjallabræður séu komnir vel á tvítugsaldurinn.
Góð stemning var á tónleikunum en meðal gestasöngvara voru Ragga Gísla, Jónas Sig, Mugison, Magnús Þór Sigmundsson, Lay Low (Lovísa E. Sigurðardóttir) og Sverrir Bergmann.