Þórdís Gísladóttir, höfundur jóladagatals Rúv 2022, skaut föstum skotum á Útlendingastofnun og þá stjórnmálamenn sem gagnrýndu þættina í opinberri umræðu, þegar hún tók á móti verðlaunum í kvöld.
Randalín og Mundi: Dagar í Desember, jóladagatalið 2022, sem byggt var á barnabókum Þórdísar, hlaut Edduverðlaun í flokki barna- og unglingaefnis.
Það fór fyrir brjóstið á mörgum hvernig Útlendingastofnun, og starfsmenn hennar, voru settir fram í þáttunum. Þótti þessi framsetning fela í sér pólitískan áróður sem ætti ekki heima í barnaefni Ríkisútvarpsins.
Rataði málefnið meðal annars inn í ræður þingmanna á Alþingi, og Útlendingastofnun fjallaði í kjölfarið um jóladagatalið á vefsíðu sinni, og birti upplýsingar undir yfirskriftinni Tölum um fólk á flótta.
Í ræðu sinni á verðlaunaathöfninni í kvöld sagði Þórdís að það væri alltaf markmiðið, við gerð barnaefnis, að ná til breiðs aldurshóps. Viðtökurnar fóru þó fram úr væntingum hennar.
Hafði hún orð á því að það hafi tekist svo vel að jafnvel „gömlum körlum á Alþingi tókst að setja þetta á dagskrá á þinginu og opinber stofnun sá ástæðu til að útskýra efnið.“
„Þetta sýnir að efni fyrir börn skiptir gríðarlega miklu máli.“