Jóhannes Hrefnuson Karlsson sem legið hefur á Inova Fairfax-sjúkrahúsinu í Virginíu í Bandaríkjunum eftir að hafa fengið streptókokkasýkingu í heilann í febrúar síðastliðinn, hefur verið útskrifaður úr endurhæfingu ytra og er á leiðinni heim.
„Við verðum í loftinu á leiðinni heim til Íslands á meðan vatnapólóið stendur yfir í Laugardalslaug í kvöld,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, móðir Jóhannesar í samtali við mbl.is.
Félagar í sundknattleiksdeild Ármanns blása til sundknattleiksgleði í Laugardalslaug til styrktar Jóhannesi klukkan 20:30 í kvöld.
Hrefna segir í samtali við mbl.is að Jóhannesi miði vel og sýni mjög góðar framfarir. Hún segir að hann sé farinn að tala meira og meira með hverjum deginum en að hann eigi enn talsvert í land og fari í talþjálfun þegar þar að kemur.
Þá segir hún að nú muni meðal annars reyna á það hversu langt hann er kominn í að ganga á ný en eðli málsins samkvæmt hefur hann ekki gengið lengra í einu en út spítalaganginn til þessa.
Jóhannes þurfti að gangast undir heilaskönnun til að ganga úr skugga um að sýklalyf væru farin að virka með réttum hætti og þegar grænt ljós fékkst úr þeirri rannsókn var hann útskrifaður.
Hrefna segist vera mjög bjartsýn með framhaldið.
„Þetta er ungur maður. Hann fer í endurhæfingu heima á Íslandi og eftir þrjá til sex mánuði kemur í ljós hvaða bata hann hefur náð en við erum mjög bjartsýn.“
Hrefna segir að Jóhannes og aðstandendur hans hafi fundið fyrir einstökum stuðningi vina og ættingja.
„Það sem maður hefur líka upplifað hér í Bandaríkjunum er ótrúleg hjálpsemi og elskusemi fólks sem hefur enga hagsmuni í að hjálpa okkur. Það er einstakt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu hérna og einstök fagmennska. Við erum orðlaus yfir hversu vel öllu hefur verið sinnt og komum heim með þakklæti og góða minningar.“
Hrefna, sem er sérfræðingur í hamingjufræðum, bendir á að í dag sé alþjóðlegi hamingjudagurinn og að þemað frá Sameinuðu þjóðunum fyrir daginn sé „get social“.
„Það er akkúrat það sem við höfum upplifað svo sterkt. Hvað fólk er gott og er tilbúið að gera extra. Við förum heim með barminn fullan af þakklæti,“ segir Hrefna Guðmundsdóttir, móðir Jóhannesar, í samtali við mbl.is.
Vilji lesendur leggja lóð sitt á vogarskálar Jóhannesar og fjölskylu þeirra fylgja hér bankaupplýsingar söfnunarreikningsins fyrir Jóhannes.
Banki: 0370-26-040837
Kennitala: 170773-3579