Bætir í vind í kvöld og nótt

Frost verður víða 1 til 12 stig, en frostlaust suðvestantil …
Frost verður víða 1 til 12 stig, en frostlaust suðvestantil yfir daginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag er spáð austlægri átt, golu eða kalda en allhvass vindur verður syðst á landinu. 

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að víða verði bjart veður, en suðaustan- og austanlands verður líklega eitthvað þungbúnara. 

Frost verður víða 1 til 12 stig, en frostlaust suðvestantil yfir daginn.

Í kvöld og nótt nálgast skil landið úr suðri og það bætir í vind. Á morgun er útlit fyrir allhvassa eða hvassa austan- og norðaustanátt, en syðst á landinu verður stormur eða rok (20-28 m/s).

Þessu fylgir snjókoma með köflum við suðurströndina, en annars staðar verða dálítil él.

Á svæðinu frá Eyjafjöllum og austur í Öræfi verður því ekkert ferðaveður á morgun, bálhvasst og auk þess líkur á hríð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka