Fáir hafa fylgt karlaflokki Aftureldingar í handbolta um jafn langt skeið og Einar Scheving, liðsstjóri og vatnsberi, og því fáum eins vel fagnað af stuðningsmönnum liðsins á laugardaginn þegar mosfellska liðið sigraði í bikarkeppni karla í handknattleik.
„Þetta er stórt, ég er hágrátandi enn í dag,“ sagði Einar þegar Morgunblaðið náði tali af honum og Hilmari Gunnarssyni ritstjóra Mosfellings daginn eftir sigurinn.
Liðið hefur ekki unnið titil frá árinu 1999 og því var sigurinn sætur. „Jú, 1999, með Skúla Gunnsteins, unnum við alla bikarana,“ segir Einar en hann hefur setið á hliðarlínunni frá 1994 og því verið liðinu til halds og trausts í nær 30 ár í gegnum súrt og sætt.
„Ég er alltaf á bekknum, með brúsana. Brúsameistarinn,“ segir Einar, en hann hefur verið titlaður liðsstjóri um árabil og mætir á alla leiki og æfingar. „Ég græja allt.“