Agla María Albertsdóttir
Miklar gróðurskemmdir eru á Mýrdalssandi sunnan Hafurseyjar vegna utanvegaksturs. Í svari frá Umhverfisstofnun segir að stofnunin telji fyrirhugaða gjaldtöku hjá landeigendum á slóðunum við Hafursey geta heft frjálsa för almennings um landið.
„Gjaldtaka fyrir aðgang að landi hefur almennt ekki tíðkast á Íslandi enda hefur verið litið á hana sem takmörkun á rétti almennings til frjálsrar farar um landið og réttar til að njóta náttúrunnar,“ segir í skriflegu svari frá Umhverfisstofnun.
Í lögum um náttúruvernd kemur fram að þar til skráning um vegi í náttúru Íslands hafi verið birt sé heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á greinilegum vegum í náttúru Íslands sem að staðaldri eru notaðir til aksturs ökutækja. Vegurinn sem liggur yfir Mýrdalssand hefur ekki verið skráður og er afstaða Umhverfisstofnunar því að gjaldtaka fyrir umferð á veginum feli í sér hindrun í að njóta þessara réttinda.
Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur í náttúruverndarteymi Umhverfisstofnunar, segir að ljóst sé að utanvegaakstur hafi valdið verulegu tjóni á landinu. Hann telur að mikilvægt sé að menn keyri veginn rólega eða sleppi því ef hann er ófær.
„Þó að vegurinn sé torfær eða ófær vegna mikils snjós þá er hann annað hvort ófær og það á ekki að fara á svæðið eða að þá að menn verða að keyra hann rólega. Það er ekki okkar að segja hvað yrði gert en fyrst og fremst þá verða menn að keyra eftir veginum þar sem svæðið fer sístækkandi og mjög ljót för á kafla,“ segir Daníel í samtali við mbl.is.