Landsnet hefur áfrýjað niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þar sem nýtt gjald sem Landsnet hóf að leggja á var dæmt ólögmætt. Um er að ræða svokallað aflgjald vegna innmötunar á raforku sem lagðist á orkuframleiðendur.
Það var Landsvirkjun sem höfðaði málið gegn Landsneti, en innmötunargjaldið var fyrst innheimt í apríl í fyrra. Fram til ársloka nam gjaldið sem Landsvirkjun greiddi samtals 1,5 milljarði króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Breytingarnar áttu sér nokkurn aðdraganda en Landsnet hóf vinnu við þær í september 2017.
Héraðsdómur taldi að um væri að ræða gjaldtöku sem lyti opinberu eftirliti Orkustofnunar og því þyrfti gjaldtakan að eiga sér skýra lagastoð. Um væri að ræða „eins konar lögbundið þjónustugjald sem þyrfti að gera skýrleikakröfur til, auk þess sem slíkar heimildir verði ekki skýrðar rúmt.“ Vísaði dómurinn til þess að ekki komi fram í raforkulögum að gjaldskrá skuli einnig gilda fyrir innmötun á flutningskerfið.
Dæmdi héraðsdómur því gjaldið ólögmætt, en nú hefur Landsnet áfrýjað þeirri niðurstöðu til Landsréttar.