Ekki hefur enn tekist að yfirheyra þá sem handteknir voru í íbúðarhúsi í Þingholtunum í Reykjavík í gærmorgun en þeir voru enn í annarlegu ástandi í gærkvöld.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segist í samtali við mbl.is vona að hægt verði að yfirheyra mennina og taka ákvörðun um framhaldið fyrir hádegi í dag.
Á sjöunda tímanum í gærmorgun var lögreglan kölluð að húsinu en þaðan hafði borist kvörtun um hávaða og háreysti. Þegar lögregla kom á staðinn reyndust þrír menn vera í íbúðinni, þeir handteknu auk annars sem var meðvitundarlaus og með litlum lífsmörkum.
Sjúkrabíll var þegar í stað kallaður til og lögregla hóf endurlífgun sem hélt áfram þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang en maðurinn var úrskurðaður látinn á bráðamóttöku Landspítalans.