Í Hvalfjarðargöngum er búið að setja upp og tengja búnað sem mælir meðalhraða bifreiða með tilliti til þess hvort ekið sé yfir löglegum hraða.
Unnið er nú að því að kvarða tæki þessi af sérfræðingum, það er að ganga úr skugga um að mælingar séu nákvæmar, eins og verður að vera. Þegar þeirri vinnu er lokið mun Vegagerðin tilkynna lögreglu og öðrum að búnaðurinn sé tilbúinn til notkunar.
Nú þegar eru meðalhraðamyndavélar á Grindavíkurvegi, þar sem hámarkið er 90 km/klst., og 70 km/klst. í Norðfjarðargöngunum. Reynslan af þeim þykir ágæt og tilgangurinn með myndavélum þykir hafa sannast. Þeir ökumenn sem oft aka greitt hafa yfirleitt ekki verið á miklu meira en 3-7 km á klst meira en leyfilegt er.
Úrvinnsla upplýsinga úr hraðamyndavélum, eins og þeim sem nú verða settar upp í Hvalfjarðargöngum, er hjá Lögreglustjóranum á Vesturlandi. Göngin sjálf eru á varðsvæði lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.