Ólafur Pálsson
Mönnunum tveimur, sem handteknir voru á vettvangi í tengslum við andlát manns í húsi í Þingholtunum í gærmorgun, hefur verið sleppt að loknum yfirheyrslum, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögregla segir í tilkynningunni að ekki sé talið að andlát mannsins hafi borið að með þeim hætti að grunur leiki á um refsiverða háttsemi. Þá segir að lögregla hafi rannsakað málið frá því að það kom upp.
Ekki var unnt að yfirheyra mennina fyrr en í dag vegna annarlegs ástands þeirra.
„Það getur vel verið að það þurfi að ræða frekar við mennina en þeir eru ekki grunaðir um að eiga þátt í láti þessa manns,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.