Kjarasamningur Rafiðnaðarsambands Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna við Orkuveitu Reykjavíkur var undirritaður rétt eftir hádegi í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. Formaður RSÍ segir breytingu hafa orðið á plönum dagsins sem endaði með undirritun.
„Hljóðið er bara alveg ágætt í okkur. Við komum saman í morgun með félögum okkar þar sem við annars vegar ætluðum að taka stöðufund vegna aðstæðna. Það varð breyting á því sökum þess að það varð hreyfing í viðræðunum sem endaði á því að það var skrifað undir kjarasamning skömmu eftir hádegi,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ.
Aðspurður hvað það hafi verið sem hreyfði við viðræðunum segist Kristján ekki getað farið nánar út í það en segir þó að hlustað hafi verið á sjónarmið þeirra.
Hann segir næstu skref leggjast vel í þau sem sátu við samningaborðið í dag. Kynningarfundur vegna samningsins verði haldinn á miðvikudag.
„Það verður ánægjulegt að kynna þessa niðurstöðu og við vonum að félagsmenn muni meta í kjölfarið hversu sáttir þeir eru með þetta en ég hins vegar geri ráð fyrir að það sé ánægja með það sem er verið að gera,“ segir Kristján.
Hann játar því að léttir fylgi undirritun samningsins.
„Það er auðvitað bara mjög gott, nú er þetta fyrsti samningurinn hjá okkur í orkugeiranum sem við erum að klára. Auðvitað bindur maður vonir við að restin af þeim samningum sem að eftir eru gangi hratt og vel fyrir sig í kjölfarið, að það komist skrið á þær viðræður í kjölfarið,“ segir Kristján en mikilvægt sé fyrir fólk að fá launahækkanir í gegn. Þá skipti máli að klára ferlið til svo hægt sé að hefjast handa við endurnýjun samninga.