Í Mosfellsbæ er gert ráð fyrir að öllum börnum 12 mánaða og eldri verði boðið leikskólapláss næsta haust. Þar sem 2021 árgangurinn er töluvert stærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum þarf hins vegar í meira mæli en áður að leita út fyrir bæinn til anna eftirspurn eftir leikskólaplássum. Kemur þar til samningur við leikskólann Korpukot í Reykjavík sem mun taka við tugum barna úr Mosfellsbæ næsta haust.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, hefur bærinn átt í farsælu samstarfi við Korpukot til margra ára, en um er að ræða sjálfstætt starfandi leikskóla við Fossaleyni í Reykjavík, sem Leikskóli fyrir alla (LFA) rekur. Hún er ekki uggandi yfir ummælum borgarstjóra um að hnykkja þurfi á forgangsákvæðum varðandi reykvísk börn inn á sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík.
Á Korpukoti eru nú þegar 22 börn með lögheimili í Mosfellsbæ en til stendur að semja um að leikskólinn taki við 50 börnum til viðbótar frá sveitarfélaginu.
„2021 árgangurinn er fjölmennari hjá öllum en gert hafði verið ráð fyrir. Áætlanir gerðu ráð fyrir 60 nýjum plássum fyrir 12 mánaða og eldri, en við þurfum að útvega 110 pláss. Þannig það er algjör barnasprengja,“ segir Regína í samtali við mbl.is. Því var leitast eftir því við Korpukot að taka við fleiri börnum en áður hefur verið samið um.
„Þetta samstarf hefur verið farsælt til margra ára og hefur verið ákveðin viðbót við leikskólastarfið í bænum,“ útskýrir Regína. Fjöldi plássa sem samið hefur verið um hingað til hefur verið á bilinu 20 til 30. Ljóst er því að börnum úr Mosfellsbæ mun fjölga töluvert á Korpukoti.
Regína segist ekki vita hvort um sambærilegan samning er að ræða og Reykjavíkurborg gerir við einkarekna leikskóla, en Mosfellsbær greiðir allan þann kostnað sem fylgir hverju barni á Korpukoti.
„Við borgum fyrir plássin fullt gjald og Mosfellsbær niðurgreiðir gagnvart foreldrum þannig að foreldrar borga sama gjald fyrir leikskólapláss í þessum skóla og leikskólum Mosfellsbæjar. Jafnframt ef barn þarf sérstuðning, þá er það Mosfellsbær sem ber kostnaðinn af því, alveg eins og í leikskólum Mosfellsbæjar.“
Á Korpukoti er gert ráð fyrir 100 börnum og á Fosskoti, sem LFA rekur einnig í Fossaleyni, eru 80 börn. Þá standa yfir viðræður á milli borgarinnar og þessara sömu rekstraðila um leigu á húsnæði sem hýsti áður leikskólann Bakka í Staðahverfi í Grafarvogi, sem lokað var um áramótin.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við mbl.is á föstudag að hnykkja þyrfti á forgangsákvæðum varðandi reykvísk börn inn í sjálfstætt starfandi leikskóla í borginni. Börnum úr öðrum sveitarfélögum færi fjölgandi í leikskólunum og færri reykvísk börn kæmust inn, þrátt fyrir að plássum hefði fjölgað.
Sagði hann hafa verið gengið út frá því í öllum samtölum um leigu á húsnæði til rekstraraðila Korpukots að þar væru reykvísk börn forgangi.
„Ég á ekki von á því að borgin breyti þeirri grunnafstöðu sinni sem við teljum að eigi að gilda um alla sambærilega samninga, að fólk sem býr í hverfinu, þá Reykvíkingar í þessu tilfelli, hafi forgang. Það er bæði sanngjarnt og líka langumhverfisvænast,“ sagði Dagur.
Aðspurð segist Regína ekki vera uggandi yfir ummælum borgarstjóra þar sem samstarfið við LFA hvílir á traustum grunni.
Í mars á síðasta ári sendi Reykjavíkurborg frá sér tilkynningu þar sem fram kom að til stæði að bjóða börnum niður í 12 mánaða pláss á leikskólum borgarinnar um haustið. Það gekk hins vegar ekki eftir þrátt fyrir að 588 ný pláss hefðu orðið til á síðasta ári á sex nýjum leikskólum. Stór hluti nýrra plássa er nú nýttur undir börn sem þegar eru með pláss, en færa hefur þurft til vegna framkvæmda við leikskólahúsnæði víða um borgina.
Fyrir liggur að færri börn fá pláss á leikskólum borgarinnar í haust vegna framkvæmdanna, en yngstu börnin sem fá boð um pláss í fyrstu lotu innritunar, sem hófst í síðustu viku, verða 18 mánaða í september.