Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, hafa undirritað samning um samræmda móttöku flóttafólks í Vestmannaeyjum. Samningurinn kveður á um að Vestmannaeyjabær taki í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að 30 flóttamönnum.
Þetta er níundi samningurinn sem undirritaður er um samræmda móttöku flóttafólks frá því í nóvember sl.
Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þar með talið íslenskunámi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir gleðiefni að Vestmannaeyjar taki á móti fólki á flótta. „Verkefnið er samfélagslega mikilvægt og það er ánægjulegt að sjá Vestmannaeyjabæ komi inn í það af fullum krafti.“
„Við hjá Vestmannaeyjabæ erum ánægð með þetta samkomulag þar sem það rammar inn með skýrum hætti þá þjónustu sem við veitum flóttafólki,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Það er mikil samstaða um það hér í Eyjum að sýna samfélagslega ábyrgð og við viljum gera vel varðandi móttöku og í öllu utan um haldi fyrir fólk sem er á flótta.“