„Blóðtaka fyrir leikskólakerfið“

Skúli Helgason.
Skúli Helgason. mbl.is/Hákon

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrr­ver­andi formaður skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar, segir mönnunarvanda vera birtingarmynd á alvarlegasta vanda leikskólastigsins í borginni, ekki bara núna heldur undanfarinn áratug. Þar hafi ákvarðanir sem voru teknar á Alþingi 2008 vegið þungt, flækt stöðuna og haft óæskileg hliðaráhrif. Önnur lagabreyting árið 2019 hafi leitt til blóðtöku fyrir leikskólakerfið. 

Hann sagði á fundi borgarstjórnar í dag, þar sem fjallað var um stöðuna á leikskólum borgarinnar, að þetta væri lykilatriði sem nauðsynlegt væri að fjalla um þegar verið væri að greina stöðuna og þennan málaflokk. 

Beint samhengi á milli vandans og lagabreytinga á Alþingi

Skúli segir að mönnunarvandinn, bæði í Reykjavík og víðar um land, standi í beinu samhengi við lagabreytingar sem voru gerðar á Alþingi árið 2008 sem voru innleiddar í löggjöf sem hét lög um menntun og ráðningu kennara og skjólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

„Þessi löggjöf sem að klárlega, ég gef mér það, var lögð fram af góðum hug hefur haft afar óæskileg hliðaráhrif; stóraukið álag á leikskólana, viðhaldið hárri starfsmannaveltu og ógnað því frábæra starfi sem að leikskólar borgarinnar og annarra sveitarfélaga hafa, þrátt fyrir allt, haldið úti árum saman,“ sagði Skúli. 

Foreldrar fjölmenntu á áhorfendapallana í Ráðhúsinu í dag.
Foreldrar fjölmenntu á áhorfendapallana í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fóru í þveröfuga átt

Hann benti á að í lögunum hafi tvennt spilað saman. Í fyrsta lagi hafi verið sett inn ákvæði um að lágmark tveir þriðju leikskólastarfsfólks skyldu vera leikskólakennarar, sem hafi verið næstum því tvöfalt hærra hlutfall en þá tíðkaðist í leikskólum landsins.

„Í raun og veru slík yfirlýsing að það hefði þurft að fara í sérstakt átak og fjármagna það hundruðum milljóna til þess að hvetja ungt fólk til þess að innrita sig í kennaranám og beita sérstökum hvataaðgerðum þannig að menn næðu að minnsta kosti langleiðina að þessu marki.“

Hann segir að Alþingi hafi á þessum tíma farið í þveröfuga átt og hafi þannig grafið undan þessu markmiði sem búið var að lögfesta, með því að lengja kennaranámið um tvö ár, eða úr þremur árum í fimm. 

„Afleiðingin var mjög alvarleg því aðsóknin, og sérstaklega fjöldi útskrifaðra, hrundi á árunum í kjölfarið. Og í stað þess að við værum að útskrifa í kringum áttatíu nýja kennara inn í leikskólana á hverju ári eins og var frá árunum 2010-2011, þá fór fjöldinn þegar verst lét í rúmlega tuttugu á ári. Og hélst þannig í mörg ár, lungann af síðasta áratug. Þannig að það var fall í fjölda útskrifaðra um 75%.“

Brast á flótti með annarri lagabreytingu

Skúli tekur fram að allra síðustu ár hafi leiðin þó legið upp á við, sérstaklega í fyrra. Það sé þó kaldhæðnislegt að á sama tíma hafi Alþingi komið með aðra lagabreytingu. „Núna um eitt leyfisbréf kennara óháð skólastigi og þá brast á flótti leikskólakennara úr leikskólaumhverfinu og yfir í grunnskólana. Rúmlega 300 leikskólakennarar hafa þannig flutt sig um set og það er auðvitað blóðtaka fyrir leikskólakerfið í landinu sem munar um.“

Skúli segir þó jákvætt að það hafi verið metfjöldi útskrifta í fyrra meðal leikskólakennara, eða 188 samanborið við 88 árið á undan og 55 árið 2020. „Það er mikilvægt. Vonandi heldur þessi þróun áfram en það er langur vegur frá því að það sé búið að vinna upp sem tapaðist næstu 10 ár þar á undan.“

Mygla og rakaskemmdir lagst með miklum þunga á starfsemina

Skúli ræddi einnig um mikla viðhaldsþörf í eldri leikskólum sem væri skammtímavandi borgarinnar, einkum vegna myglu og rakaskemmda, sem hefur lagst með miklum þunga á starfsemina, bæði í fyrra og nú í ár. 

„Afleiðingin er sú að mörg hundruð pláss sem alla jafna eru opin fyrir innritun nýrra barna á haustin eru nú lokuð vegna framkvæmda og stærðargráðan þar er í kringum 300 pláss á þessu ári. Því til viðbótar eru um 150 pláss sem ekki hefur tekist að fylla vegna manneklunnar sem ég nefndi áðan. Þetta eru 450 pláss sem við hefðum í venjulegu árferði getað nýtt til að bjóða yngri börnum en nýtast ekki sem skyldi þessi misserin. Þetta er meginskýringin á þeim vanda sem við erum í í dag,“ sagði Skúli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka