Lögreglumönnum á hverja þúsund íbúa hér á landi hefur fækkað frá árinu 2007 en á síðasta ári var hlutfall lögreglumanna, menntaðra og ómenntaðra, 1,8 á hverja þúsund íbúa miðað við 2,2 árið 2007.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur þingmanns Viðreisnar um fjölda starfandi lögreglumanna á Íslandi.
Þá voru um tíu lögreglumenn til staðar fyrir hverja tíu þúsund ferðamenn á árunum 2012 og 2013 en árin 2017 og 2018 hafði hlutfallið lækkað niður í tæplega þrjá lögreglumenn.
Sé fjöldi lögreglumanna á Íslandi á hverja hundrað þúsund íbúa borinn saman við evrópskt meðaltal kemur þó nokkur munur í ljós. Samkvæmt tölum Eurostat frá árinu 2020 var evrópskt meðaltal lögreglumanna á hverja hundrað þúsund íbúa 333,4. Á Íslandi er fjöldinn miklu minni eða 176 lögreglumenn. Í svari sínu segir dómsmálaráðherra samanburðinn erfiðan vegna þess að misjafnt sé á milli landa hvaða löggæsluaðilar séu hafðir með í útreikningum.
Þorbjörg segir muninn á Íslandi og Evrópu sláandi.
„Af því að þetta er samræmd mælistika þá finnst manni munurinn ansi mikill. Þetta helst auðvitað í hendur við það sem lögreglan hefur sjálf verið að benda á um litla fjölgun yfir töluvert langt tímabil þrátt fyrir mikla fólksfjölgun og þrátt fyrir algjöra sprengingu í ferðaþjónustu,“ segir Þorbjörg í samtali við Morgunblaðið.
Þá kveðst hún hafa miklar áhyggjur af stöðunni en löggæsla eigi það til að gleymast þegar rætt sé um innviði.
„Löggæsla er algjör grundvallarþáttur þar. Það er frumskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna og það er gert með því að löggæsla sé mönnuð,“ segir Þorbjörg.