FÍB vill að allir greiði kílómetragjald - einnig rafmagnsbílar

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kynnir tillögur félagsins …
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kynnir tillögur félagsins um útfærslu á kílómetragjaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) leggur til að svokölluðu kílómetragjaldi verði komið á fót. Gjaldið myndi koma í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti ökutækja en með því myndu eigendur rafmagnsbíla einnig þurfa að borga fyrir afnot af vegakerfinu.

Í morgun fór fram blaðamannafundur í húsakynnum FÍB þar sem Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins, kynnti tillöguna.

„Í grunninn erum við að reyna að búa til gegnsætt og einfalt kerfi sem gefur ríkinu sambærilegar tekjur og af núverandi skattinnheimtu,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is. „Í sjálfu sér veitir þetta okkur sem neytendum og vegfarendum upplýsingar um það hvað við erum að borgar.“

Runólfur segir að gjaldið geti staðið undir samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu og komið í stað fyrirhugaðrar innheimtu vegtolla en FÍB telur tollana óhagkvæma.

Í stað þess að borga aukalegan skatt af eldsneyti eða að borga vegtolla myndi hver og einn bíleigandi greiða kílómetragjald við skattframtal. Bíleigandi myndi þá gera áætlun um hve langt yrði keyrt, sem yrði síðan leiðrétt við álestur.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kynnir tillögur félagsins …
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kynnir tillögur félagsins um útfærslu á kílómetragjaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Gjald miðar við kolefnislosun og þyngd bifreiðar

Kílómetragjaldið myndi taka mið af umhverfisgjaldi og álagsgjaldi. Umhverfisgjaldið tekur mið af kolefnislosun ökutækis en álagsgjaldið tekur mið af þyngd þess.

„Við teljum að þetta sé umhverfislega jákvætt, það leggja allir til innviðabyggingar og svo er þetta neytendavænt þar sem fólk veit hvað þetta kostar,“ segir Runólfur.

Umhverfisgjald er reiknað út frá kolefnislosun ökutækis sem er svo deilt með meðallosun allra ökutækja (152 g/km) síðan margfaldað með sex. Álagsgjaldið er mælt út frá heildarþyngd bifreiðar sem deilt er með meðalþyngd allra ökutækja og margfaldað með sex.

Ford Focus frá árinu 2021 (sem losar 140 grömm af koltvísýringi á hvern kílómeter og er 1.905 kg) myndi á hvern kílómeter borga 5,56 krónur í umhverfisgjald og 3,32 krónur í álagsgjald, eða samtals 8,88 krónur á hvern ekinn kílómeter. Ef við miðum við að eigandi bílsins keyri 15.000 kílómetra á ári er árgjald 133.200 krónur.

Á vefsíðu FÍB er reiknivél sem gerir bíleigendum kleift að sjá hvernig kílómetragjald kemur út. 

Rafbílaeigendur þyrftu líka að borga

Núverandi tekjustofnar ríkisins af notkun ökutækja eru að mestu leyti skattar á jarðefnaeldsneyti. Því hafa eigendur rafbíla ekki þurft að greiða í ríkissjóð vegna notkunar á ökutæki sínu.

Vegna álagsgjaldsins, sem mælist af þyngd ökutækis, munu rafbílaeigendur einnig þurfa að greiða kílómetragjald, þó mun minna þar sem rafbílar losa ekki frá sér koltvísýring.

Ástæðan fyrir því að álagsgjaldið tekur mið af þyngd bifreiðarinnar er sú að þyngd ökutækis segir mest til um slit þess á vegum landsins.

Runólfur, sem á sjálfur rafmagnsbíl, segir að búast megi við nokkru ósætti frá rafbílaeigendum en honum þykir það þó ósanngjarnt að rafbílaeigendur þurfi ekki að borga fyrir slit ökutækjanna á veginum.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kynnir tillögur félagsins …
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, kynnir tillögur félagsins um útfærslu á kílómetragjaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Neytandinn borgi svipað og nú

„Þetta er bara mjög svipað og í sumum tilvikum minna,“ segir Runólfur, spurður hvort meðalbílaeigandinn myndi borga meira eða minna en núna.

Hann segir að ætti að vera hægt að koma til móts við fólk sem neyðist til þess að keyra meira en aðrir, t.d. ef viðkomandi býr langt frá nauðsynlegum þjónustum.

„Við þekkjum það frá nágrannalöndum okkar að stundum er ákvæði um það að fólk sem býr í dreifðari byggðum sem á um langan veg að sækja þjónustu, heilbrigðisþjónustu og annað, fái tillegg í gegnum frádrátt í skattframtali.“

Runólfur segir að slíkar undantekningar séu „útfærsluatriði eftir á“ og bætir við að ákvarðanir um öll mál þess háttar yrðu í höndum stjórnvalda.

Atvinnubílsstjórar missáttir

Runólfur segir að frá þeim útreikningum myndu atvinnubílstjórar borga svipaða upphæð og þeir gera nú en þó fái kílómetragjaldið misgóðar móttökur.

„Við höfum heyrt frá atvinnubílstjórum að þeim finnist sanngjarnt að bifreiðagjaldið sem kemur tvisvar á ári sé jafnaðargreiðsla þar sem það er ekki jafn mikið að gera á hverjum árstíma.“

Runólfur segir að FÍB hafi þó fengið einhverja gagnrýni frá leigubílstjórum, sem hafa óskað eftir því að þak verði sett á kílómetraverðið þar sem þeir aka meira en meðalökumaðurinn. Hann segir að það breyti litlu þar sem leigubílstjórar rukki nú þegar eftir vegalengd.

„Við höfum bent á það á móti að notkunin feli í sér gjaldtöku, þannig að menn eru að innheimta fyrir ekna kílómetra. Það er bara eðlilegt að það sé sami stuðullinn áfram,“ segir Runólfur að lokum. 

Meira má lesa um tillöguna á vef FÍB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka