Jón Páll Baldvinsson, formaður FETAR, hagsmunasamtaka fyrirtækja sem starfa við heilsársferðaþjónustu á hálendi og láglendi, segir ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi eyða töluverðu fjármagni í að halda veginum á Mýrdalssandi sunnan Hafurseyjar við. Hann segir fyrirtækin þannig hafa tekið að sér hlutverk veghaldara.
„Fyrirtækin kosta miklu til við vegheflun og að endurnýja stikur. Á haustin koma þau aftur til þess að hefla veginn og leggja stikur,“ segir Jón Páll.
Hann vísar því á bug að um utanvegaakstur sé að ræða þar sem hjólförin séu rétt til hliðar við veginn.
„Komið hefur til tals að breikka vegstæði á því svæði sem myndin er tekin þar sem núverandi vegbreidd annar illa þeirri umferð sem þjónustar aðkomu að Kötlujökli.“
Hann segir ennfremur að ferðaþjónustufyrirtækin geti ekki borið ábyrgð á allri umferð á þjóðvegum landsins þar sem vanbúnir ökumenn á bílaleigubílum fari ítrekað utan veglínu til að sleppa við holur og polla, jafnvel í einbeittum utanvegaakstri.
Hann segir að hvers konar greiðsla til landeigenda sé fáránleg og að það sem landeigendur sjái í málinu er að þeir geti grætt á ferðaþjónustufyrirtækjum.
„Það væri ekki gott ef fulltrúar landeigenda hringinn í kringum landið ættu rétt á því að innheimta einhver gjöld fyrir ekki neitt. Eins og lögmaður frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) sagði þá brýtur innheimta fyrir ekki neitt gegn því sem fest er í lög að í viðskiptum verður að vera viðskiptalegt andlag,“ segir Jón og bætir við að vegir landsins séu ekki lagðir til þess að einhver landeigandi geti rukkað almenna vegfarendur um vegtolla. Slíkt hefur aðeins verið gert í örfáum tilfellum, eins og Hvalfjarðar- og Vaðlaheiðargöngum.