Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir að það sé ekki algjört frost á íbúðamarkaði eins og hækkun á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu gefur til kynna en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli janúarmánaðar og febrúarmánaðar.
Hún segir að kaupsamningum hafi einnig fjölgað á milli mánaða en að janúar sé reyndar yfirleitt frekar rólegur mánuður í fasteignaviðskiptum.
„Það seldust 11% færri íbúðir í febrúar en í sama mánuði á síðasta ári. Þannig að það er alveg þokkalegt, alls ekki sláandi fáir kaupsamningar,“ segir Una.
Henni þykir ólíklegt að þessi hækkun á vísitölu íbúðaverðs hafi mikil áhrif á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans en tilkynnt verður um næstu vaxtaákvörðun á morgun.
„Það er aldrei gott að oftúlka eina mælingu en það er kannski aðeins meiri verðbólga. Við vorum í okkar skammtímaspá fyrir verðbólgu farin að gera ráð fyrir lækkunum áfram á milli mánaða en þetta eykur aðeins verðbólguþrýstingin en þetta er þó mjög hófstillt hækkun.“
Hagfræðideild Landsbankans spáir fyrir um hækkun stýrivaxta um 0,75 prósentustig.
„Verðbólgan er orðin mjög mikil og verðbólguvæntingar einnig. Þessi hækkun vísitölu íbúðaverðs ýtir kannski svolítið undir það. Þetta er ekki lækkun og þetta eykur aðeins skammtímaverðbólguhorfur.“
Hún telur niðurstöðu peningastefnunefndar verða að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig.
„Þó að nefndin muni líklega ræða allt frá 0,5 prósentustigum upp í 1 prósentustig en framvirka leiðsögnin síðast var á þann veg að líklega yrði hækkað aftur.
Þá var gert ráð fyrir því að verðbólgan hefði náð toppi en svo hefur hún bara aukist og verðbólguhorfur almennt bara versnað.
Svo ég held að stigið verði aðeins stærra skref en áður var talið,“ segir hún og heldur áfram.
„Þetta er spurning hversu hratt má fara og hversu stór skref er hægt að stíga í einu.
Það er eflaust það sem peningastefnunefndin er að velta fyrir sér,“ segir Una.