Akraneskaupstaður og íslenska fyrirtækið Transition Labs hafa samþykkt að kanna grundvöll þess að ráðist verði í uppbyggingu svokallaðs Loftslagsgarðs, athafnasvæðis með þyrpingu fyrirtækja í loftslagstengdri starfsemi, í sveitarfélaginu.
Í tilkynningu segir að bærinn muni taka frá landsvæði fyrir Loftslagsgarðinn sem Transition Labs hefur einkarétt á að nýta til ákveðins tíma á meðan deiliskipulag svæðisins er útfært og möguleikar eins og öflugar orkutengingar eru kannaðir nánar.
Transition Labs mun leita uppi og semja við aðila sem gætu haft áhuga á að starfa í Loftslagsgarðinum.
Nú þegar starfar bandaríska loftslagsfyrirtækið Running Tide við að rækta þörungagró á Akranesi, en Transition Labs undirbjó komu félagsins til landsins og stýrði fyrstu stigum uppbyggingar.
Landssvæðið sem um ræðir er um 51 hektari að stærð og er staðsett í Garðaflóa, ofan við núverandi íbúðabyggð á Akranesi.
Þá segir í tilkynningunni að þó að málið sé enn á könnunarstigi þá sé horft til þess að starfsemin geti skapað tugi starfa í fyrsta áfanga fyrir fólk með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum, s.s. starfsfólk í framleiðslu, tæknifólk, stjórnendur og vísindafólk m.a. á sviði náttúruvísinda.