„Veðrið versnaði til muna og svo hressilega að nú er ég með plóginn fastan upp á Fjarðarheiði auk mjólkurbíls sem átti að fylgja yfir í dag,“ segir Jens Olsen Hilmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Egilsstöðum.
„Það er meiriháttar vinna fyrir höndum að reyna að frelsa þá úr þessu hvíta dufti,“ segir hann.
Til stóð að fylgja um 500 farþegum Norrænu yfir heiðina í fylgdarakstri en Jens segir Vegagerðina búna að blása fyrirhugaðan fylgdarakstur af enda sé algjörlega ófært að reyna á það og glórulaust að taka áhættu með líf og limi fólks.
Hann segir að Norræna muni taka við þeim farþegum ferjunnar sem eru fastir á Seyðisfirði í nótt og þurfa húsaskjól en að einhverjir séu á húsbílum og muni þeir gista í þeim.
Jens segir að búið sé að loka öllum fjallvegum á svæðinu.
„Við höfum lokað Fjarðarheiði, Vatnsskarði niður til Borgarfjarðar og því sem við köllum Fjöllin, sem er leiðin upp Jökuldal og Möðrudal og á Mývatn.“
Hann segist hafa mannskap uppi á fjallvegunum með bæði plóg og þá séu björgunarsveitir að koma fólki niður og yfir bæði norður eftir og austur eftir.
„Vonandi gengur veðrið svo niður og við náum að opna leiðir fyrir eða í kringum hádegi. Við ætlum að taka stöðuna aftur í fyrramálið,“ segir Jens Olsen Hilmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Egilsstöðum.