Soffía Lára Stefánsdóttir lét vel í sér heyra á áheyrendapöllum í Ráðhúsinu í dag þar sem fór fram fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún er 20 mánaða og þrátt fyrir að verða rúmlega tveggja ára í haust er hún enn neðarlega á biðlistum á leikskólum í Vesturbænum þar sem hún býr.
Reyndar svo neðarlega að foreldrar hennar hafa gefist upp á leikskólum í hverfinu og sótt um í öðrum hverfum. Að sögn móður Soffíu Láru er hún löngu tilbúin að hitta önnur börn og foreldrarnir viljugir að keyra með hana nánast hvert sem er í borginni, fái hún einhvers staðar leikskólapláss.
„Við höfum sótt um á mörgum einkareknum leikskólum og lögðum áherslu á Vesturbæinn í fyrstu með borgarrekna, en athugðum svo við hvar hún kæmist fyrst inn og sóttum frekar um þar. Það er jafnvel í Grafarvogi og Grafarholti, einhvers staðar langt í burtu,“ segir Berglind Bergmann, móðir Soffíu Láru og Þórarins Bærons sem er fimm mánaða.
Hún var mætt á pallana í Ráðhúsinu með bæði börnin, ásamt fjölda annarra foreldra sem vildu vekja athygli á slæmri stöðu í leikskólamálum í borginni. Flestir í algjörri óvissu um hvað tekur við þegar fæðingarorlofinu lýkur og sjá fram á töluvert tekjutap.
„Ég er orðin örvæntingafull hennar vegna að hún fái að hitta önnur börn. 12 mánaða var hún alveg tilbúin að fara á leikskóla en ég skil alveg að það eru ekki öll börn þar og ekki allir foreldrar heldur. En hún var þannig barn og hefur verið tilbúin síðan. Mér finnst þetta svo sorglegt fyrir hennar hönd þannig ég er alveg tilbúin að keyra hvert sem er,“ segir Berglind.
Það var ljóst að sú stutta var ekkert sérstaklega spennt fyrir því að eyða deginum í Ráðhúsinu. Hún hljóp um pallana, frekar ósátt við að fá ekki að kanna umhverfið að vild. Sérstaklega var tekið fram í upphafi borgarstjórnarfundar að frammíköll væru ekki leyfð. Soffía Lára virti það vettugi og lýsti skoðun sinni kröftuglega þegar móðir hennar varnaði því að hún færi niður stiga eða stingi af fram á gang. Eftir smá samningaviðræður og ýmis tilboð sættist Soffía Lára á að fá nokkur bláber og horfa á Frozen í símanum hjá mömmu. Þá varð allt betra um stund.
„Þegar við fengum fréttir af því að yngsta barnið sem kæmist inn á Hagaborg væri tveggja og hálfs árs, þá ákváðum við að reyna að fara annað. Þá þarf maður að vera á bíl, jafnvel tveimur og þá getur maður ekki verið í þessum bíllausa lífsstíl. Þannig þetta er allt frekar glatað,“ segir Berglind, en leikskólinn Hagaborg er í Vesturbænum og einn þeirra sem foreldrarnir sóttu um fyrir Soffíu Lára áður en þau afskrifuðu hverfið sitt.
Staðan í leikskólamálum í Vesturbænum er frekar slæm, en Grandaborg var lokað síðasta haust vegna skólpmengunar og börnin sem voru þar flutt tímabundið yfir á Gullborg sem einnig er í Vesturbænum. Ekki er gert ráð fyrir að endurbótum á Grandaborg ljúki fyrr en haustið 2024 og á meðan komast færri börn inn á leikskóla í hverfinu.
Það kom foreldrum Soffíu Láru þó ekki á óvart að hún þyrfti að bíða eftir leikskólaplássi, enda var metfjöldi fæðinga sumarið sem hún fæddist og því margir um hituna þegar kemur að leikskólaplássum. Borgin hefði mátt bregðast betur við því sem fyrirséð var, að sögn Berglindar.
„Hún er af þessum stóra árgangi 2021, ein af covid-börnunum. Hún fæðist um sumarið þegar það er metfjöldi fæðinga. Þá vissi maður alveg að að yrði vesen með leikskóla og það stefndi í ákveðna krísu, en það hefur lítið gerst síðan til að mæta þessari þörf. Það er eins og þetta hafi komið á óvart þrátt fyrir að hafa legið ljóst fyrir.“
Fimmtán mánuðir eru á milli Soffíu Láru og Þórarins Bærons, bróður hennar, en Berglind náði að fara aftur til vinnu í nokkra mánuði á milli barna þar sem ættingjar í sumarfríi gátu gætt Soffíu Láru á meðan foreldrarnir unnu. Berglind starfar sem læknir á Landspítalanum þar sem hún sinnir sjúklingum sem fastir eru á bráðamóttökunni.
„Það munar alveg um einn lækni þar. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa náð nokkrum mánuðum. En þá vorum við í púsluspili. Við vorum heppin að það var sumar og fólk nálægt okkur komið sumarfrí þannig við náðum að púsla saman öllum dögunum þegar við vorum bæði komin aftur til vinnu.“
Þórarinn Bæron verður 11 mánaða í september og því afar ólíklegt að hann komist inn á leikskóla í haust. Berglind veit því ekki hvað tekur við þegar fæðingarorlofinu lýkur við 12 mánaða aldur.
„Núna erum við það heppin að ég er í fæðingarorlofi og get verið með hana líka þannig ég er ekki að verða fyrir sama tekjutapi og margir aðrir. Ég fæ greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. En ég veit ekki hvað við gerum þegar við klárum fæðingarorlofið. Ég býst við því að það verði sama staða með hann og hana. Þá er það spurning hvort það verður maðurinn minn, sem vinnur í Seðlabankanum sem verður heima, eða ég sem er læknir. Við verðum bara taka það þegar þar að kemur.“