„Algjört forgangsmál að ná verðbólgu niður“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er auðvitað mikil hækkun en því miður ekki óvænt enda hefur verðbólga verið þrálát og gengið hægar niður en við hefðum viljað sjá,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, í samtali við mbl.is, en peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti um eitt prósentustig, úr 6,5% í 7,5%.

Katrín segir að unnið sé nú að undirbúningi fjármálaáætlunar, sem kynnt verður í næstu viku.

„Eins og áður hefur komið fram munum við boða þar aðgerðir þannig að ríkisfjármálin taki fullan þátt í því að takast á við verðbólguna.“

Hún segir þessa vaxtahækkun sýna mikilvægi þess því hún hafi gríðarleg áhrif á kjör alls almennings í landinu.

Það sem maður vill er ekki aðalatriðið

Hefðir þú viljað sjá minni hækkun stýrivaxta nú?

„Það sem maður vill er ekki aðalatriðið í þessu. Staðan er bara þessi. Ég lít svo á að verðbólgan sé viðfangsefni númer eitt, tvö og þrjú um þessar mundir.

Það er algjört forgangsmál fyrir okur öll að við náum henni niður hratt og örugglega. Þar munum við skila okkar í gegnum ríkisfjármálin,“ segir Katrín.

Mjög mikil hækkun

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri sagði, í samtali við mbl.is fyrr í dag, alla hjálp frá rík­is­vald­inu þegar komi að því að draga úr þenslu vera vel þegna, en að Seðlabank­inn mun ekki bíða eft­ir nein­um. Því hafi verið ákveðið að stíga stór skref í dag.

„Hundrað punkta hækkun er mjög mikil hækkun,“ segir Katrín.

„Seðlabankinn metur stöðuna þannig að þetta sé nauðsynleg aðgerð og rökstuddi það í dag. Það kom ekki á óvart þó hækkunin sé mjög mikil,“ heldur hún áfram.

Fylgjast með atvinnuástandinu

Katrín segir að fylgjast þurfi grannt með þróun atvinnuleysis.

„Atvinnuleysi hefur verið í algjöru lágmarki að undanförnu. Við höfum búið við mjög mikinn hagvöxt á síðasta ári og langt umfram það sem gerist í nágrannalöndunum og umsvifin eru enn þá mjög mikil í hagkerfinu en að sjálfsögðu þarf að fylgjast grannt með atvinnuástandinu ef það fer að versna aftur.“

Ekki að fást við samdrátt

En hvernig metur forsætisráðherra stöðuna?

„Ég held að staða okkar sé að mörgu leyti góð. Í alþjóðlegu samhengi er skuldastaðan góð. Umsvifin í hagkerfinu eru mikil og við erum ekki að fást við samdrátt á sama tíma og verðbólgu eins og sumar nágrannaþjóðir okkar.

Ég held að við höfum full færi á því að vinna okkur út úr þessu en til þess þarf allt að vinna saman. Það hefur verið rætt hér um þjóðarsátt gegn verðbólgu. Til þess að hún geti náðst þurfum við áfram að ná farsælum samningum á vinnumarkaði, við þurfum að beita ríkisfjármálunum og Seðlabankinn að beita sínum tækjum.

Ég hrósa þeim fyrirtækjum sem hafa núna verið að auglýsa verðlækkanir og hvet fleiri til að fylgja þeirra fordæmi því það virkilega sýnir að það er einbeittur vilji hjá mörgum að virkilega leggja eitthvað af mörkum inn í þennan slag,“ segir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka