Ekki er vitað hvað olli bilun á Mjólkárlínu þar sem ekki hefur verið möguleiki á að skoða línuna vegna veðurs og slæmrar færðar.
Þetta segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við mbl.is og bætir við að ekki líti út fyrir að viðgerðarmenn komist að línunni í dag.
„Á meðan þá erum við að búa okkur undir að senda mannskap vestur og við munum fylgjast vel með stöðunni og bregðast við um leið og veðurgluggi opnast,“ segir Steinunn.
Búist er við því að farið verði í að laga bilunina í seinasta lagi á morgun.
„Það er engin hætta á að það verði rafmagnslaust á Vestfjörðum út af þessu,“ segir Steinunn en varaaflsstöðvar tóku við þegar bilunin varð.
Þess má geta að Mjólkárlína er tréstauralína og hefur verið virk frá árinu 1981.