Brá við fréttir af sjö klukkustunda aðfararaðgerð

Jóhann Páll telur nauðsynlegt að fara yfir framkvæmd aðfararaðgerða er …
Jóhann Páll telur nauðsynlegt að fara yfir framkvæmd aðfararaðgerða er varða börn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að fara þurfi rækilega yfir framkvæmd aðfararaðgerða er varða börn, eins og þegar koma á umgengni, lögheimili eða forsjá barna. Lögheimili barna hefur tvisvar verið komið á með aðför á síðastliðnum sjö árum, en sýslumaður getur óskað liðsinnis lögreglu við slíkar aðgerðir, sem heimilt er að beita valdi líkt og við önnur skyldustörf.

Jóhann Páll hefur nú í annað sinn lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um aðfararaðgerðir er varða börn og telur mikilvægt að Alþingi fái fram ítarlegar upplýsingar um samspil ákveðinna ákvæða í barnalögum og beitingu þeirra. Til að mynda hvort og hvernig sé tekið tillit til sjónarmiða barnanna sjálfra við framkvæmd aðfarar og hversu langt stjórnvöld telji sér heimilt að ganga.

I fyrirspurn sinni óskar Jóhann Páll meðal annars eftir upplýsingum um hversu oft lögheimili eða forsjá hefur hefur verð hefur verið komið á með aðfararaðgerð síðastliðin tíu ár og hvort tillit hafi verið tekið til skoðana barnanna miðað við aldur þeirra og þroska. Þá spyr hann einnig hvort stjórnvöldum sé heimilt að beita líkamlegu valdi við framkvæmd slíkrar aðgerðar og hvort það samrýmist réttindum og hagsmunum barns á táningsaldri að lögheimili eða forsjá sé komið á með valdbeitingu gegn yfirlýstum mótmælum barnsins.

Lögheimili tvisvar komið á með aðför

Fyrri fyrirspurn sína lagði Jóhann Páll fram í október á síðasta ári eftir að sagðar höfðu verið fréttir af sjö klukkustunda aðfararaðgerð sem framkvæmd var á Barnaspítala Hringsins þar sem framfylgja átti dómsúrskurði í forsjármáli og flytja barn, sem var í lyfjameðferð, frá móður sinni til föður.

Í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við þeirri fyrirspurn kom fram að hann teldi tilefni til að beina því til sýslumanns að yfirfara og endurskoða eftir atvikum verklagsreglur sýslumanna um aðfararaðgerðir er vörðuðu börn, með það í huga að skoða möguleika á aukinni aðkomu sérfræðinga í málefnum barna. Einnig kom fram að lögheimili barna hefði verið tvisvar verið komið á með aðför á síðastliðnum sjö árum.

Sé ekki barni fyrir bestu að flytja það með valdi

„Ég hef já áhyggjur af framkvæmd þessara mála. Mér brá þegar ég las fréttir af sjö klukkustunda aðfarargerð sem var framkvæmd á spítala þar sem barn var í lyfjameðferð. Ég held að Alþingi þurfi að taka alvarlega umræðu um þessa 45. gr. barnalaga um aðfarargerðir,“ segir Jóhann Páll í samtali við mbl.is.

Bendir hann á að árið 2011 hafi þáverandi dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp til breytinga á barnalögum um að fella burt ákvæði um heimild til aðfarar, en meirihluti velferðarnefndar hafi hins vegar ákveðið að halda ákvæðinu inni.

„Var það mat dómsmálaráðuneytisins að fella þyrfti brott ákvæði um heimild til aðfarar. Það gæti aldrei verið barni fyrir bestu að flytja það með valdi milli foreldra, áhættan af því að barn biði skaða af framkvæmd aðfarar væri einfaldlega svo mikil að ekki væri á það hættandi að grípa til svo afdrifaríkra úrræða,“ segir Jóhann Páll.

„Ég held að við þurfum að fara núna rækilega yfir framkvæmdina og taka aftur stöðuna,“ bætir hann við.

Aðspurður hvort fyrirspurn hans nú tengist einhverju ákveðnu máli segir hann ekki svo vera.

„Tengist ekki einhverju einu tilteknu máli heldur varðar framkvæmdina almennt og er þá framlag til umræðu um hvort það þurfi e.t.v. að breyta lögum til að verja betur hagsmuni barna.“

Þarf að afhenda föður syni gegn vilja þeirra

mbl.is hefur fjallað um mál þriggja drengja sem afhenda á föður með aðfararaðgerð, en þeir voru sóttir til Noregs af móður sinni fyrir ári síðan. Norskur dómstóll hafði úrskurðað að faðir drengjanna skyldi einn fara með forsjá þeirra og þeir skyldu hafa lögheimili hjá honum. Móður sína áttu þeir aðeins að fá að hitta í 16 klukkustundir á ári, undir eftirliti.

Móðirin, Edda Björk Arnardóttir, sagði í samtali við mbl.is að hún teldi velferð drengjanna ógnað hjá föður þeirra og ákvað hún því að sækja þá til Noregs og fara með til Íslands.

Drengirnir, sem eru 12 og 9 ára, hafa búið hjá móður sinni síðan, en Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að drengirnir skuli teknir úr umsjá hennar og afhentir föður þeirra í Noregi, þvert gegn vilja drengjanna. Í dómi héraðsdóms er einnig horft framhjá niðurstöðu dómkvadds matsmanns sem segir að taka eigi mark á því sem þeir segja

Matsmaður telur að það geti verið drengjunum skaðlegt að vera afhentir föður sínum miðað við þá óvissu sem ríkir um umgengni þeirra við móður sína og systur í framhaldinu.

Spyr hvort þvinga eigi börnin eða hóta þeim

Í samtali við mbl.is sagði Edda það ljóst að drengirnir fengju ekki að hitta hana færu þeir aftur til Noregs. Þá velti hún því upp hvernig ætti að framkvæma þá aðgerð að fara með drengina til föður síns.

„Hver á að hjálpa hon­um? Á að halda á börn­un­um út. Ætlar lög­regla og barna­vernd virki­lega að halda á þess­um börn­um út úr húsi, halda á þeim inn í flug­vél? Þeir eru ekki að fara sjálf­ir,“ sagði Edda.

„Og ef ekki, á að and­lega þvinga börn­in, á að hóta þeim?“ spurði hún. Úrskurðinum hefur ekki enn verið framfylgt en Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Eddu sem hyggst fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Valdbeiting heimil við aðfararaðgerð

Í lögum kemur fram að sýslumaður geti leitað liðsinnis lögreglu við aðfararaðgerð og að lögreglu sé skylt að verða við slíkum fyrirmælum. Lögreglumenn skuli þó vera óeinkennisklæddir. Framkvæmdinni skuli hagað þannig að sem minnst álag verði fyrir barn og er sýslumanni heimilt að stöðva aðgerð telji hann hætti á að barn hljóti skaða af framhaldi hennar.

Í bréfi sem dómsmálaráðneytið sendi embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í febrúar árið 2020, í þeim tilgangi að koma á framfæri sjónarmiðum sem líta bæri til við framkvæmd aðfararaðgerða er varða börn, er bent á að lögreglu sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa. Tekið er þó fram að aldrei megi ganga lengra í beitingu valds en þörf krefji hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert